Komið upp um peningaþvætti

Starfsmenn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans rannsökuðu á síðasta ári ætlað peningaþvætti sjómanna á erlendu skipi sem siglir reglulega til Íslands. Með milligöngu tengifulltrúa voru upplýsingar um þessa rannsókn settar inn í gagnagrunna Europol sem tengdi þær við starfsemi skipulagðra glæpahópa í Austur-Evrópu og leiddi til aðgerða gegn þeim í öðrum löndum með góðum árangri, að því er fram kemur í skýrslunni sem unnin var af Arnari Jenssyni tengifulltrúa Ríkislögreglustjóra hjá Europol, evrópska lögreglusamstarfinu.

 Íslenska lögreglan sendi á síðasta ári 27 mál til Europol í Haag í Hollandi  fyrir milligöngu fulltrúa Ríkislögreglustjóra þar. Eru það nærri þrefalt fleiri mál en árið áður og telur fulltrúinn að það sýni að brotastarfsemi á Íslandi sé tengd alþjóðlegri glæpastarfsemi í mörgum brotaflokkum.

Í skýrslu Arnars  kemur fram að ellefu íslensk mál voru tengd gagnagrunnum Europol á árinu 2007 og 27 mál á síðastliðnu ári. Sérfræðingar Europol hafa greint þessar upplýsingar og mál með því að tengja við fyrirliggjandi upplýsingar frá öðrum löndum og út úr þeirri vinnu hafa komið í ljós ýmis tengsl íslenskrar brotastarfsemi við skipulagða erlenda glæpahópa. Nokkrar rannsóknir hafa farið fram á grundvelli þeirra greininga sem þegar hafa skilað árangri og nokkrar standa yfir.

Meðal lögregluaðgerða sem sagt er frá í skýrslunni er að Europol kom að „Operation Old Lorry“, þegar tollgæslan á Seyðisfirði lagði hald á tæp 200 kíló af hassi auk marijúana og kókaíns í sérútbúnum húsbíl sem kom með Norrænu frá Danmörku. 

Tengslaskrifstofan aðstoðaði við gagnaöflun og greiningu upplýsinga um hópa Pólverja og Litháa sem grunur er um að stundi skipulagða brotastarfsemi á Íslandi. Ýmis tengsl komu í ljós við þekkta brotamenn erlendis.

Skrifstofan aðstoðaði fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við undirbúning og aðgerðir gagnvart framleiðslu á amfetamíni og MDMA-efnum í Hafnarfirði. Sú aðgerð er í skýrslunni nefnd „Operation Einstein“.

Íslenska lögreglan varð formlegur þátttakandi í samevrópsku samstarfi um aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi mjótorhjólaklúbbanna Hells Angels, Bandidos og Outlaws. Íslenski mótorhjólaklúbburinn Fáfnir hefur verið talinn tengdur Hells Angels og ríkislögreglustjórinn talið að talsverð hætta geti stafað af því að sú tenging nái fótfestu á Íslandi. Íslenska lögreglan fær aðstoð Europol við aðgerðir sem þessu tengjast.

Í maí 2008 voru þrír Rúmenar handteknir vegna umfangsmikilla greiðslukortasvika á höfuðborgarsvæðinu. Þeir reyndust hafa flutt með sér til landsins mikinn fjölda falsaðra korta og kortanúmera sem þeir notuðu til að ná reiðufé úr hraðbönkum. Fyrir milligöngu tengslaskrifstofunnar fengu starfsmenn fjársvikadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu aðstoð og ráðgjöf við rannsókn þessa máls.


Tæki til amfetamínframleiðslu.
Tæki til amfetamínframleiðslu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert