Forsvarsmenn NBI, sem stofnaður var utan um innlenda starfsemi Landsbankans eftir að skilanefnd Fjármálaeftirlitsins tók hann yfir, neita að upplýsa hjá hvaða viðskiptavinum 1,8 milljarða skuld hefur verið endanlega afskrifuð. Í svari Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra við fyrirspurn um afskriftir nýju ríkisbankanna kom fram að aðeins NBI hefði, einn ríkisbanka, endanlega afskrifað fyrrnefnda upphæð.
Í svari Landsbankans við fyrirspurn Morgunblaðsins segir: „Endanleg afskrift er ekki framkvæmd fyrr en innheimtuaðgerðir hafa verið reyndar í þaula og ekki er talið mögulegt að staðið verði við skuldbindingar. Gagnvart fyrirtækjum felur þetta oftast í sér að þau hafa farið í gjaldþrot. Landsbankinn gefur ekki upplýsingar um viðskiptavini sem hafa lent í slíkum greiðsluerfiðleikum að nauðsynlegt er að afskrifa útlán.“ Undir svarið ritar Ólafía Harðardóttir á hagfræðisviði bankans.