Árið 2008 stóð til að gefa 50 MS sjúklingum tysabri lyfið en í dag hafa 45 fengið þessa meðferð. Ein aðalástæða þess að töf hefur orðið á gjöf voru dauðsföll eftir gjöf tysabri erlendis sem gáfu tilefni til aukinnar varfærni. Af 45 sjúklingum sem hafa fengið lyfið hérlendis hafa 3 þurft að hætta meðferð vegna ofnæmisviðbragða. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Birni Zoëga, framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala vegna umfjöllunar um tysabri meðferð á spítalanum.
„Að undanförnu hefur verið nokkur umræða í fjölmiðlum um tysabri meðferð á Landspítala. Landspítali hefur staðið afar faglega að tysabri meðferð en nú hafa hlutfallslega fleiri sjúklingar á Íslandi fengið lyfið en annars staðar á Norðurlöndum og er munurinn tvöfalt til fjórfaldur Íslandi í hag, sé miðað við höfðatölu. Hæfustu sérfræðingar landsins á sviði taugasjúkdóma stjórna meðferðinni sem hefur að mestu gengið eftir áætlun.
Árið 2008 stóð til að gefa 50 MS sjúklingum lyfið en í dag hafa 45 fengið þessa meðferð. Ein aðalástæða þess að töf hefur orðið á gjöf voru dauðsföll eftir gjöf tysabri erlendis sem gáfu tilefni til aukinnar varfærni. Af 45 sjúklingum sem hafa fengið lyfið hérlendis hafa 3 þurft að hætta meðferð vegna ofnæmisviðbragða.
Ýmsir hafa hvatt til meiri tysabri gjafar þrátt fyrir að erlend reynsla sýni að aukaverkanir geti verið lífshættulegar. Ef illa fer er ábyrgðin hins vegar Landspítala. Það er því nauðsynlegt fyrir öryggi sjúklinga að meðferð sem þessari sé stjórnað af færustu sérfræðingum. Á hinn bóginn er afar skiljanlegt að þeir sem þjást af MS reki á eftir meðferð.
Skoðanir og reynsla sjúklinga, sem meðal annars koma fram í umfjöllun sjúklingasamtaka, skipta miklu máli og eru starfsfólki Landspítala mikilvæg hvatning til að gera sífellt betur enda er unnið að því innan LSH að efla slík samskipti.
Vegna ummæla alþingismanns í fréttum um helgina, þess efnis að dæmi væri um að menntunarstig sjúklinga hafi ráðið ákvörðun um val á fólki í meðferð, vill Landspítali taka fram að slík vinnubrögð eru ekki viðhöfð á LSH. Það sem stjórnar því hverjir fá þessa meðferð er klínískt mat sérfræðinga, auk niðurstaðna úr ákveðnum rannsóknum á sjúklingum.Til þess að fá þessa meðferð þarf að uppfylla atriði sem tilgreind eru nákvæmlega í klínískum leiðbeiningum spítalans og byggjast á gagnreyndum rannsóknum.
Einnig hefur verið sagt að aðstaða á taugadeild spítalans sé ekki nógu góð til að gefa lyfið tysabri. Það er rétt að aðstaða á taugadeild Landspítala gæti verið betri enda er ljóst að húsnæði spítalans þarf að bæta í heild sinni og þess vegna er verið að vinna að undirbúningi að nýjum háskólaspítala," að því er segir í yfirlýsingu Björns Zoëga.