Karlmaður var í héraðsdómi dæmdur til að greiða ungri konu ríflega átta milljónir króna í skaðabætur vegna tjóns sem hún varð fyrir þegar hún ók vélsleða í eigu mannsins.
Slysið varð við Hafravatn vorið 2002. Þá var stúlkan 17 ára og fór ásamt manninum og kærasta sínum, syni mannsins, að Hafravatni. Vélsleði sem stúlkan ók var ótryggður, auk þess sem hún var hjálmlaus. Ágreiningur er með aðilum um aðdraganda ferðarinnar og atvik á Hafravatnsvegi þegar slysið varð. Fyrir liggur að hún kastaðist af sleðanum og hlaut þungt höfuðhögg. Hún hlaut brot víðsvegar á höfuðkúpu og blæðingu inn í kúpuna. Þá greindist mar á heila og þurfti stúlkan vegna þess að undirgangast nokkrar aðgerðir og m.a. var fjarlægt skemmt svæði úr heila hennar.
Afleiðingar slyssins á heilsufar stúlkunnar urðu verulegar, bæði líkamlegar og andlegar. Líkamlegar afleiðingar slysins eru fyrst og fremst verulegur heilaskaði sem er einnig rót hluta andlegra afleiðinga slyssins. Meðal andlegra afleiðinga voru nefndar persónuleikabreytingar, þunglyndi og kvíði, áráttuhegðun o.fl. Sömuleiðis varð veruleg seinkun á skólagöngu stúlkunnar vegna andlegra afleiðinga slyssins, auk þess sem hún missti hlutastarf sitt vegna þeirra. Þá fór hún að finna fyrir flogum árið 2005 og síðan var hún greind með flogaveiki, sem talin er bein afleiðing slyssins.
Bótakrafa konunnar hljóðaði upphaflega upp á rúmar 11 milljónir króna en þegar málinu var stefnt fyrir dóm hljóðaði krafan upp á rúmar 9 milljónir króna. Eigandi sleðans var talinn bera ábyrgðina og því dæmdur til að greiða henni skaðabætur að upphæð rúmar 8 milljónir króna, ásamt vöxtum og dráttarvöxtum.