Hlynntur valfrjálsu tilvísanakerfi

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segist vera hlynntur því að tekið verði upp tilvísanakerfi í heilbrigðiskerfinu að danskri fyrirmynd eða svonefnt valfrjálst stýrikerfi.

Þetta kom fram í svari heilbrigðisráðherra við spurningu Sivjar Friðleifsdóttur Framsóknarflokki á Alþingi í dag. Ögmundur sagði að landsfundur Vinstri grænna hefði ályktað um helgina um að farin yrði þessi leið. Reynsla Dana væri góð, þar sem 98% Dana nýttu sér tilvísunarhluta heilbrigðisþjónustunnar. Ögmundur sagðist telja að þessi leið kæmi vel til greina en gæta þurfi að því að grunnþjónustan sé styrkt samhliða valfrjálsu stýrikerfi, ef því yrði komið á. Sagðist hann þegar hafa rætt við lækna og fleiri um þessa hugmynd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert