Lögskráning úrelt fyrirbrigði

Smábátar í höfninni á Flateyri.
Smábátar í höfninni á Flateyri. mbl.is/Ómar

„Ég skora á sjómanna-, skipstjóra- og vélstjórasamtökin og LÍÚ að koma í lið með Landsambandi smábátaeigenda og mæla með að lög um lögskráningu verði aflögð. Að öðrum kosti bið ég samtökin um láta af þeim leiða ósið að hlutast til um málefni smábátaeigenda sem ekki varða þeirra hagsmuni,“ segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri LS.

Örn skrifar um lögskráningarlög, sem nú eru til meðferðar á Alþingi, í nýjustu útgáfu Fiskifrétta.

Hann segir að enn á ný sé gerð tilraun til að troða lögskráningu upp á smábátaútgerðina. Fyrir Alþingi liggur frumvarp samgönguráðherra þess efnis sem er nú til umfjöllunar í samgöngunefnd. Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur skilað umsögn um frumvarpið og mótmælt þeim þætti sem á við smábátaútgerðina um að skylt verði að lögskrá á öll skip í stað skipa 20 brt. og stærri.

Markmið lögskráningar eru fimm.

  1. Að tryggja að sjómenn hafi gild skírteini til þess að starfa um borð í skipi.
  2. Að skip hafi gilt haffærisskírteini.
  3. Að lögboðin áhafnartrygging sé í gildi.
  4. Að tryggja sönnun fyrir því hverjir séu um borð í skipi hverju sinni.
  5. Að siglingatími sjómanna sé skráður.

Í athugasemdum með frumvarpinu segir að lögskráning eigi sér ekki hliðstæður hjá öðrum þjóðum en sögu lögskráningar megi rekja aftur til ársins 1889.

„Lög um lögskráningu eru glöggt dæmi um lög sem gleymst hefur að afnema. Lög um áhafnir skipa, sjómannalög, skráningu skipa, eftirlit með skipum, smíði og búnað skipa, hafa tekið yfir öll þau atriði sem felast lögskráningarlögunum. Lög um lögskráningu fjalla því í raun um ekkert annað en að fara að lögum,“ segir Örn Pálsson.

Hann segir samgöngunefnd eiga að afgreiða frumvarp um lögskráningu og leggja til að lögin verði felld úr gildi.

Fyrir liggur að hagsmunasamtök í sjávarútvegi að LS undanskildu eru fylgjandi lögunum, í það minnsta þeim þætti að smábátaeigendum verði skylt að lögskrá.

Ég skora á sjómanna-, skipstjóra- og vélstjórasamtökin og LÍÚ að koma í lið með LS og mæla með að lög um lögskráningu verði aflögð. Að öðrum kosti bið ég samtökin um láta af þeim leiða ósið að hlutast til um málefni smábátaeigenda sem ekki varða þeirra hagsmuni.

Frumvarp um lögskráningu sjómanna

Skrif Arnar Pálssonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert