Fréttaskýring: NATO á krossgötum á sextugsafmæli

Þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað árið 1949 fór markmið þess og tilgangur ekki á milli mála. Bandalagið var stofnað til varnar gegn Sovétríkjunum. Nú eru hins vegar tæp átján ár liðin frá því að Sovétríkin hrundu og NATO er bandalag í leit að tilgangi og sýn aðildarríkjanna á ógnir samtímans og framtíðina ólík.

Þessa dagana sitja embættismenn yfir uppköstum að texta sameiginlegrar yfirlýsingar leiðtogafundar NATO, sem haldinn verður í byrjun apríl með sérstakri áherslu á sextugsafmælið. Listinn yfir ógnirnar er kunnuglegur: hryðjuverk, útbreiðsla gereyðingarvopna og annarra vígtóla, brostin ríki, orkuöryggi, netöryggi og sjórán.

Síðan er spurningin um umfangið. Á NATO að vera svæðisbundið bandalag, á allur hnötturinn að vera undir eða á jafnvel að hætta að takmarka það við álfurnar, sem liggja að Norður-Atlantshafi og gefa ríkjum á borð við Ástralíu, Japan og Suður-Kóreu kost á inngöngu?

Meginástæðan fyrir inngöngu nýrra aðildarríkja er svæðisbundið hlutverk NATO. Návígið við Rússa er þeim nægt tilefni til að vilja njóta verndar fimmtu greinar stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins, sem kveður á um að verði ráðist á eitt aðildarríki jafngildi það árás á þau öll.

Gömlu ríkin horfa hins vegar á öryggismál í víðara samhengi. Til að tryggja öryggi aðildarríkja NATO þarf að vera hægt að senda herafla til landa á borð við Afganistan.

Spurningin um það hvort NATO eigi að bregðast við svæðisbundinni eða hnattrænni ógn snýst ekki bara um hugmyndafræði, heldur uppbyggingu herja, krónur og aura. Á að byggja upp varnir í Evrópu eða leggja áherslu á uppbyggingu herafla, sem hægt er að flytja með litlum fyrirvara hvert á land sem er?

Pólverjar og Tékkar eru óþreytandi að hamra á landvarnarhlutverkinu. Danir hafa hins vegar breytt um stefnu í varnarmálum og líta svo á að gæsla öryggis snúist ekki lengur um landvarnir í hefðbundnum skilningi. Þeir hafa á undanförnum árum lagt áherslu á að geta sent herlið á vettvang hvar sem er í heiminum.

Íslendingar hafa lagt mikla áherslu á að Atlantshafsbandalagið megi ekki vanrækja norðurslóðir. Í heimsókn í höfuðstöðvar NATO í Brussel kom í ljós að ráðstefna, sem haldin var á Íslandi um öryggi á norðurslóðum um það leyti, sem hér urðu stjórnarskipti, hafði vakið athygli. Miklar breytingar væru augljóslega í vændum vegna bráðnunar íshellunnar á norðurpólnum. Því mæti búast við auknum siglingum í óskilgreindri framtíð.

James Appathurai, talsmaður Atlantshafsbandalagsins, sagði á fundi með norrænum blaðamönnum að ef til vill yrði minnst á öryggi á norðurslóðum í yfirlýsingu leiðtogafundarins, en þótt svo yrði ekki væri ljóst að málefni þessa svæðis væru komin á dagskrá Atlantshafsbandalagsins.

Hvað sem því líður er ljóst að norðurslóðir eru ekki helsta áhyggjuefni aðildarríkja NATO þegar leitast er við að leggja fram grundvallarstefnu, sem á að taka við af þeirri stefnu sem mörkuð var 1999. Til marks um hvað þörfin er brýn er allt það, sem gerst hefur í millitíðinni: hryðjuverkin 11. september 2001, innrásin í Afganistan og Íraksstríðið, auk þess sem aðildarríkjunum hefur fjölgað verulega og um mánaðamótin bætast tvö ný við, Albanía og Króatía.

Allt í sóma?

Ulrich Weisser, varaaðmíráll úr þýska sjóhernum og fyrrverandi yfirmaður þýska herráðsins, skrifaði grein í vikuritið Die Zeit í febrúar þar sem hann sagði að hin herfræðilega grunnhugmynd að baki Atlantshafsbandalaginu væri úrelt.Finna þyrfti svör við eftirfarandi spurningum: Hvaða herfræðilega lærdóm getur bandalagið dregið af reynslunni til þessa af óhliðstæðum ógnum og baráttunni gegn fjölþjóðlegum hryðjuverkum? Hvaða hættur stafa af ríkjum, sem eru við það að hrynja? Hvernig getum við tekið á ógnum þar sem þær verða til og áður en hrikalegar afleiðingar ná til okkar landa? Hvað getur bandalagið gert til að tryggja öryggi mikilvægra flutningsleiða? Hvernig getur það haft meira afgerandi áhrif á vopnaeftirlit og afvopnun?„Nú er þörf á miskunnarlausri greiningu á glöpum og mistökum seinni tíma. Aðeins með slíkri greiningu verður til grunnur að uppbyggilegri umræðu um framhald Atlantshafsbandalagsins,“ skrifar Weisser.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka