Héraðsdómur Reykjavíkur ákvað í morgun að fresta ákvörðun refsingar yfir stjórnarformanni og framkvæmdastjóra fyrirtækis vegna fjárdráttar þar sem rannsókn málsins hefur dregist úr hömlu þrátt fyrir að það sé ekki mikið að umfangi. Í málinu kærði lögreglustjóraembættið í Reykjavík fólkið fyrir fjárdrátt vegna þess að ekki var staðið í skilum á meðlagsgreiðslum starfsmanns til Innheimtustofnunar sveitarfélaga þrátt fyrir að meðlagið, alls 658.106 krónur, hafi verið dregnar af starfsmanninum.
Kæra vegna málsins barst lögreglu með bréfi dags. 9. febrúar 2006. Skýrsla var þó ekki tekin af forsvarsmönnum fyrirtækisins fyrr en í ágúst og október 2007. Ákæra var síðan gefin út hinn 23. september 2008.
„Samkvæmt því er ljóst að rannsókn málsins hefur dregist úr hömlu þrátt fyrir að það sé ekki mikið að umfangi. Hefur töf þessi ekki verið skýrð með viðhlítandi hætti. Að þessu virtu þykir eins og hér háttar rétt að fresta ákvörðun um refsingu beggja ákærðu og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá dómsbirtingu að telja haldi þau almennt skilorð," að því er segir í niðurstöðu héraðsdóms.
Meðlagsgreiðslurnar voru hins vegar dregnar af starfsmanninum á tímabilinu júní 2003 til júlí 2004 og átti að greiða þær til Innheimtustofnunar innan tveggja vikna frá því að þær voru dregnar af launum starfsmannsins.