Tilkynnt var um vopnað rán á Hrannargötu í Reykjanesbæ rétt fyrir klukkan tíu í gærkvöldi. En þar hafði pizzusendill frá Dominos verið rændur. Sendillinn hafði verið pantaður að húsnæði við Hrannargötu og þegar hann kom á staðinn biðu hans þrír dökkklæddir menn með lamhúshettur og réðust á hann.
Einn mannanna var vopnaður hníf og lamdi hann sendilinn tvívegis í höfuðið með hnífsskeftinu auk þess sem hinir tveir gengu í skrokk á honum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Sendilinn vankaðist við höfuðhöggin en komst undan á hlaupum og hafði samband við lögreglu. Sendillinn var lemstraður og blóðugur eftir árásina og var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar en saumað var eitt spor í hnakka hans.
Árásarmennirnir náðu ekki að taka peninga af sendlinum en tóku pizzur og meðlæti úr bifreiðinni og hlupu á brott. Árásarmennirnir eru ófundnir og lýsir lögreglan eftir hugsanlegum vitnum að árásinni og biður alla, sem kynnu að hafa séð til árásarinnar að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum.
Rétt eftir kl. 19 í gærkvöldi varð fjórhjólaslys á Krísuvíkurvegi rétt sunnan við Hafnarfjörð. Þar hafði ökumaður fjórhjóls misst vald á hjólinu í brekku og hjólið oltið ofan á hann. Við slysið fékk ökumaðurinn opið beinbrot á fæti og var hann fluttur með sjúkrabifreið á Landsspítalann í Fossvogi.
Um kl. 21 í gærkvöldi var tilkynnt um tvö fjórhjól á friðlýstu svæði við Setbergið rétt sunnan við Sandgerði. Þar höfðu ökumenn hjólanna verið að spóla upp jarðveginn og sátu hjólin föst eftir þegar landeigandinn kom þar að. Þeir höfðu einnig skemmt netagirðingu sem umliggur svæðið. Lögreglan kom á vettvang og hafði uppi á ökumönnunum og reyndist annar þeirra vera réttindalaus, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum.
.