Byrjað verður að bora allt að 4.500 metra holu í Vítismóum við Kröflu í dag. Um einstakt verkefni er að ræða sem fylgst er með víða um lönd. Þetta er fyrsta djúpborun hérlendis en borað verður niður í eldvirkt svæði með það að markmiði að virkja yfirmarkshitaðan vökva á þessu mikla dýpi við Kröflu.
Bjarni Pálsson, verkfræðingur hjá Landsvirkjun Power, segir miðað við að ljúka borunum í lok júní og að vökvasýni verði tekin í ágústmánuði. Í framhaldinu verði hugsanlega hannað tilraunaorkuver ofan á holuna. „Það kemur þó ekki í ljós fyrr en eftir 5-10 ár hversu raunhæft er að framleiða orku með þessum hætti,“ segir Bjarni.
Kostnaður við djúpborunina er áætlaður 20 milljónir dollara eða sem nemur um 2,3 milljörðum króna miðað við að gengi dollars sé 115 krónur. Landsvirkjun borgar rúmlega helming þess kostnaðar. Tveir alþjóðlegir rannsóknasjóðir taka þátt í kostnaði við tilteknar rannsóknir. NSF í Bandaríkjunum greiðir 3 milljónir dollara og ICDP í Þýskalandi 1,5 milljónir dollara.
Hitaveita Suðurnesja, Orkuveita Reykjavíkur, Orkustofnun, Alcoa og Statoil Hydro eru einnig þátttakendur í verkefninu.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.