Gylfi: Rétt að semja um frestun launahækkana

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Frikki

Forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, telur að þrátt fyrir þá ákvörðun nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja að hækka laun frá og með 1. mars sl. í stað þess að fresta umsömdum launahækkunum, þá hafi það verið rétt ákvörðun að semja um slíka frestun við Samtök atvinnulífsins.

„Það er ekkert við þessar aðstæður sem að breytir þeirri stöðu að íslenskt atvinnulíf er í talsverðum vanda. Ég held því miður að þau fyrirtæki sem um ræður séu ekki í sérstaklega góðum málum á þessu ári."

Engum bannað að hækka laun

Hann segir að auðvitað sé afkoma þeirra á síðasta ári góð miðað við að gjaldmiðillinn hrundi en nú hafi bæði loðnu- og síldarvertíð brugðist og verð á afurðum þeirra fer lækkandi.

„Ég verð að viðurkenna það að það kemur mér í opna skjöldu að afkoman sé svona góð hjá þeim. En auðvitað er það þannig að tekin er miðstýrð ákvörðun á vinnumarkaði þá kann málið að snúast öðru vísi við gagnvart einstaka fyrirtækjum. Það er ekkert nýtt í því. En það er ekki bannað að hækka laun í landinu. Því miður held ég ef horft er á byggingargeirann, verslun og þjónustu og reyndar stóran hluta sjávarútvegsins þá hygg ég að staðan sé því miður þannig að ég hef meiri áhyggjur af atvinnuöryggi fólks heldur en þessu.

Atvinnuleysi er að nálgast átján þúsund manns. Það ber ekki vott um neitt sérstaklega góða stöðu. Þannig ef fyrirtæki hafa borð fyrir báru þá finnst mér nú frekar að þau eigi að halda fjármagninu inni í fyrirtækjunum heldur en að greiða út arð og byggja fyrirtækin upp. Eða þá að vera þátttakendur í að byggja önnur fyrirtæki upp fremur en að taka þetta út í formi arðgreiðslna. Við höfum líka sagt það að ef eigendur telja það bestu leiðina þá sé það algjörlega óásættanlegt að starfsmenn fyrirtækjanna fá ekki að njóta þess," segir Gylfi.

Mestu skiptir að fjölga störfum

Hann segir að það sé sín skoðun að mestu skipti að reyna að fjölga störfum á Íslandi og það sé það sem ASÍ leggi ofuráherslu á. Ljóst sé að upplegg ASÍ fyrir aukaársfundinn á morgun sé að fara yfir og endurskoða tillögur sambandsins frá því í haust. En aðaláherslan sé á bráðaaðgerðir sem snerta atvinnumarkaðinn og hag heimilanna. Að sama skapi að huga að langtíma stefnumörkun varðandi okkar gjaldmiðil og aðild að Evrópusambandinu.

„Hvaða fyrirvara við viljum setja við uppbyggingu fjármálalífsins og kröfur um siðferði. Það er engin launung á því að við teljum að það sé nauðsynlegt að segja skýrar reglur varðandi okkar lífeyrissjóði. Um siðferði í fjárfestingum en líka um innri starfsemi þeirra. Segja þurfi upp innri reglur og þar viljum við bæði horfa til starfskjara en ekki síður varðandi siðferði í formi gjafa, risnu ofl. Trúverðugleiki þessara stofnana er okkur mjög mikilvægur því þarna er varsla lífeyris okkar félagsmanna," segir Gylfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert