Teknar voru myndir með neðansjávarmyndavél í Friðarhöfn í Vestmannaeyjum til að kanna ástand síldarinnar, sem þar hefur haldið sig að undanförnu. Fram kemur á vefnum Eyjafréttum.is. að hafsbotninn sé þakinn dauðri síld.
Þeir Gunnlaugur Erlendsson og Þorbjörn Víglundsson fjalla um málið á bloggsíðu Þorbjarnar og þar er einnig myndskeið, sem sýnir síldina á botninum.
Segir þar, að greinilega stefni í mikla mengun af völdum dauðu síldarinnar. Mikið magn af síld sé í höfninni.
Vestmannaeyjabær sendi í gær stjórnvöldum erindi þar sem þess var krafist að tafarlaust verði veitt heimild til að hefja á ný hreinsun sýktrar síldar úr Vestmannaeyjahöfn. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið stöðvaði hreinsunina á föstudag og bar við fiskifræðilegum rökum.
Sagðist Vestmannaeyingar telja verulega hættu á umhverfisslysi ef hreinsun
verði ekki heimiluð á ný og áskilja sér allan rétt til að krefja ríkið
um greiðslu vegna þess kostnaðar sem verður af hreinsun vegna þess
umhverfisslyss sem Eyjamenn segja líkur eru fyrir.