Kristján Þór Júlíusson sá til þess með yfirlýsingu í hlíðum Vaðlaheiðar, gegnt Akureyri, á sunnudag að einhver spenna verður í formannskjöri á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um næstu helgi. Bjarni Benediktsson lýsti yfir framboði til formanns í byrjun febrúar sl., skömmu eftir að Geir H. Haarde tilkynnti að hann sæktist ekki eftir endurkjöri sem formaður flokksins. Þó að yfirlýsingar um formannsframboð hafi komið frá fleirum er ólíklegt að þeir blandi sér fyrir alvöru í baráttuna.
Ekki hefur verið formannsslagur í Sjálfstæðisflokknum í 18 ár, eða síðan Davíð Oddsson velti Þorsteini Pálssyni úr sessi árið 1991 með 53% atkvæða. Síðast var kosið á milli arftaka á formannsstóli árið 1983 þegar Geir Hallgrímsson lét af embætti. Þorsteinn Pálsson hafði þá sigur eftir formannsslag við þá Friðrik Sophusson og Birgi Ísleif Gunnarsson.
Enn sem komið er hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ein lýst því yfir að hún sé áfram í kjöri til varaformanns flokksins. Hún hefur verið varaformaður frá haustmánuðum 2005 er hún hafði sigur í kosningu á Kristjáni Þór með rúm 62% atkvæða. Þorgerður var svo endurkjörin varaformaður á landsfundi fyrir tveimur árum án mótframboðs.
Kristján Þór fékk rúm 36% í kosningunni 2005 og ber viðmælendum blaðsins saman um að hann hafi á þeim tíma styrkt stöðu sína innan flokksins, ekki kominn á þing en starfað lengi að sveitarstjórnarmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann flaug síðan á þing árið 2007 og hlaut á dögunum afgerandi kosningu í leiðtogasætið í prófkjörinu í Norðausturkjördæmi.
Kristján Þór er fyrirfram sagður eiga á brattann að sækja en hann muni hins vegar veita Bjarna harða og kærkomna keppni. Talið er mikilvægt bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og nýjan formann að fá fram skýran vilja landsfundarfulltrúa. Fyrir umræðuna og lýðræðið innan flokksins hafi mótframboð Kristjáns Þórs því verið nauðsynlegt, til að koma í veg fyrir einhverja „hallelújasamkomu“ eða rússneska kosningu formanns, eins og það var orðað.
Málefnalega séð er ekki sagður stór áherslumunur á þeim félögum, helst er nefnd afstaða þeirra til Evrópumála, þar sem Kristján Þór hefur haft fleiri fyrirvara við ESB-aðild en Bjarni. Báðir hafa þeir þó lýst vilja til að þjóðin fái að taka afstöðu til viðræðna um aðild. Kristján Þór er formaður Evrópunefndar flokksins sem mun skila af sér skýrslu á landsfundi. Niðurstaða þeirrar skýrslu gæti haft einhver áhrif á formannsframboðið.
Fylgi þeirra félaga gæti átt eftir að skiptast eftir landshlutum. Bjarni hefur sterka stöðu á suðvesturhorninu á meðan Kristján Þór höfðar meira til landsbyggðarmanna, ekki síst sveitarstjórnarmanna sem eru fjölmennir á landsfundi og öflugur þrýstihópur.
Reglur landsfundar eru með þeim hætti að allir fulltrúar eru í kjöri og því gæti það gerst að lokinni formannskosningu, ef Bjarni hefur sigur, að Kristján Þór lýsi yfir kjöri til varaformanns. Það er hins vegar talið afar ólíklegt að hann geri það.
Á þinginu í sex ár
Bjarni Benediktsson er 39 ára, lögmaður að mennt, og hefur setið á Alþingi frá 2003, m.a. sem formaður allsherjar- og utanríkismálanefndar. Hann hefur verið formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar í Garðabæ og var þar til um áramót stjórnarformaður BNT, eiganda N1. Bjarni Benediktsson, sem var formaður Sjálfstæðisflokksins 1961-1970, var afabróðir Bjarna.
Bæjarstjóri í 20 ár
Kristján Þór Júlíusson verður 52 ára á þessu ári. Hann hefur setið á þingi síðan vorið 2007. Er með skipstjórnar- og kennararéttindi en lengstan feril hefur hann átt í sveitarstjórnarmálum. Var bæjarstjóri á Dalvík, Ísafirði og Akureyri á árunum 1986-2006 og sat á öllum þeim stöðum einnig í stjórn útgerðarfyrirtækja, auk þess hefur hann setið í fjölda annarra nefnda og ráða og átt sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins frá 2002.