Margt líkt með Íslandi og Enron

„Margt er líkt með skyldum," sagði Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag þegar hann var spurður hvort ofmetin viðskiptavild íslensku bankanna minnti ekki á Enron málið.

Gylfi segir augljóst að í hrunadansinum hafi bankarnir búið til eigið fé á pappírnum, annars vegar með því að breyta lánsfé í eigið fé með því að lána til hlutafjárkaupa og síðan hafi menn keypt eignir á óraunhæfu verði og fært muninn sem viðskiptavild.

Ráðherrann segir að kannski hafi menn verið að blekkja sjálfan sig en þeir hafi blekkt aðra í leiðinni. Hvort þetta sé saknæmt verði til þess bærir aðilar að skera úr um. Frá hans sjónarhóli sem hagfræðings sé hinsvegar ljóst að menn hafi búið til verðmæti á pappírnum sem engin innistæða var fyrir.

Enron málið var rannsakað sem sakamál en bankahrunið er hinsvegar ekki enn rannsakað sem slíkt þótt hluti þess kunni að verða það. Ráðherrann segir að varla sé hægt að taka allt efnahagslíf Íslendinga og skoða það sem sakamál, það verði að velja og hafna. Sumt sé ámælisvert þótt það sé ekki brot á lögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert