„Við fórum bara yfir stöðuna. Það var engin tilviljun að við vorum að gera þetta samkomulag um frestun launahækkana. Það hefur bara verið sú staða innan Samtaka atvinnulífsins að þessir samningar sem slíkir hanga á bláþræði. Og það liggur bara fyrir að það getur vel komið upp sú staða að samtökin hrekist í að framlengja ekki kjarasamninga,“ sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins eftir fund með Gylfa Arnbjörnssyni, forseta Alþýðusambands Íslands.
Vilhjálmur segir mikla óánægju innan SA með að fyrirtæki hafi, fyrir mikinn þrýsting frá verkalýðshreyfingunni, ákveðið að greiða launahækkanir, þrátt fyrir samkomulag um frestun hækkana fram á sumar.
„Og ef að þessi þrýstingur heldur áfram þá getur það ekki þróast nema á einn veg. Ef að menn halda að þessi hækkun upp á 13.500 krónur á mánuði sé bara í hendi, þá er það mikill misskilningur. Við getum auðveldlega hrakist út í það að framlengja ekki. Þá þurfa félögin að semja um allt upp á nýtt og það kemur ekki meira út úr því þannig að staðan er grafalvarleg,“ segir Vilhjálmur Egilsson.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands segir ekkert banna fyrirtækjum í landinu að hækka laun en málið snúist að miklu leyti um þá uppákomu sem varð í kringum HB Granda og þá ákvörðun sem stjórnin tók um arðgreiðslur.
„Það hefur myndast þrýstingur annars staðar, á sjávarútvegsfyrirtæki sérstaklega, og ég ætla ekki að hafa á því sérstaka skoðun að öðru leyti en því að okkar áhersla hlýtur fyrst og fremst að vera að nýta stöðu atvinnulífsins til uppbyggingar og fjölgunar starfa en ekki til þess að eigendur taki út arðgreiðslur. Það er verið að reyna að leggja drög hér að sátt og það er mikilvægt að það taki allir þátt í því. Samtök atvinnulífsins auðvitað meta sína stöðu og það er engin launung á því að þeir meta það þannig að þeir gætu verið hraktir í það að segja hreinlega upp samningunum vegna þess að eftir því sem fleiri fyrirtæki fara þessa leið, að hækka laun, þrátt fyrir samkomulag um frestun,“ segir forseti ASÍ.
Gylfi segir að rofni sáttin milli SA og ASÍ þá geti orðið mjög torvelt að ná saman í júní.
„Forystusveit ASÍ lítur einfaldlega á það sem sitt verkefni að reyna að halda í þau verðmæti sem eru í núverandi kjarasamningum, þó að það kunni að leiða til þess að þær launahækkanir komi fram á síðari dagsetningum. Það eru einfaldlega það verðmætar launahækkanir. Ef okkur tekst að gera þetta, þó það sé á síðari dagsetningum, þá mun kaupmáttur okkar kauptaxta hjá verkafólki, vera um það bil 10% hærri í lok þessa samningstíma en heldur en var í upphafi ársins 2008. En ég hef áhyggjur af því að sú atburðarrás sem byrjar með tillögu stjórnar HB Granda um arðgreiðslur og endar með því að víða er gerð krafa um sambærilegar greiðslur og HB Grandi tók ákvörðun um, geti leitt til þess að þessi samningur sem við höfum, fari sundur og um leið hverfi þau verðmæti sem í honum felast,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Aukaársfundur ASÍ verður haldinn á morgun og þar verður staðan í kjaramálum m.a. rædd.