Síldin í Vestmannaeyjahöfn verði rannsökuð betur

Síldveiðar við Básaskersbryggju.
Síldveiðar við Básaskersbryggju. mynd/eyjar.net

Sjávarútvegsráðuneytið hefur óskað eftir því við Hafrannsóknastofnun að aflað verði frekari gagna um ástandið í höfninni í Vestmannaeyjum í samstarfi við heimamenn og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, til þess að unnt sé að meta þá mengunarhættu sem bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum telja að stafi af sýktri síld, sem þar heldur sig.

Veiðar á síldinni voru leyfðar tímabundið  í síðustu viku á grundvelli umsagnar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands með skilyrði um sýnatöku af síldinni undir eftirliti Hafrannsóknastofnunarinnar. Veidd voru 500-600 tonn í þessu skyni. Eftir rannsókn lagðist stofnunin gegn áframhaldandi veiðum, þar sem hún hefur verulegur áhyggjur af síldarstofninum og telur nokkrar líkur á að síldin gangi út úr höfninni.

Sjávarútvegsráðuneytið segir, að talið sé að rúmlega fjórðungur síldarinnar (27%) sé ósýktur og mikilvægt sé að vernda þann hluta. Því þurfi mjög ríka ástæðu til að víkja frá gildandi veiðireglum og verndunar­sjónarmiðum. Á þessum grundvelli stöðvaði ráðuneytið veiðarnar.

Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum mótmælti þessari stöðvun bréflega um helgina og krafðist áframhaldandi heimildar til veiða. Jafnframt hefur ráðuneytinu borist ítrekuð umsögn Heilbrigðis­ftirlits Suðurlands, þar sem tekið er undir kröfu bæjarstjórans.

Hefur ráðuneytið nú óskað eftir því við Hafrannsóknastofnunina að afla enn frekari gagna um ástandið í höfninni í samstarfi við heimamenn og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, til þess að unnt sé að meta þá mengunarhættu sem bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa áhyggjur af. Niðurstöður munu liggja fyrir innan fárra daga og mun ráðuneytið þá taka ákvörðun um framhaldið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka