Tveir bankar í stað þriggja

mbl.is

Líklegt er að tveir af nýju bönkunum þremur verði sameinaðir á næstu vikum eða mánuðum, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Hugmyndir þess efnis hafa að undanförnu verið ræddar innan viðskipta- og fjármálaráðuneytis og Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands.

Helst er talið að Íslandsbanki og NBI, sem stofnaður var utan um innlenda starfsemi gamla Landsbankans, verði sameinaðir en kröfuhafar gamla Kaupþings, með þýska bankann Deutsche Bank sem einn stærsta einstaka kröfuhafann, eignist Nýja Kaupþing að öllu leyti eða a.m.k. að stærstum hluta. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur skilanefnd Kaupþings greint stjórnvöldum frá því að það væri skynsamlegast að kröfuhafarnir eignuðust Nýja Kaupþing að fullu.

Staða NBI er verst af bönkunum þremur en fyrir liggur að ekki eru til eignir í bankanum sem duga upp í forgangskröfur. Ekki er því eftir miklu að slægjast fyrir kröfuhafa í þeim banka, miðað við hina. Þá er staða nokkurra fyrirtækja sem eru viðskiptavinir NBI erfið en bankinn hefur lítið svigrúm til þess að koma til móts við þá viðskiptavini sem eiga í mestu vandræðunum.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er talið nauðsynlegt að gefa bönkunum meira svigrúm til þess að þjónusta viðskiptavini sína sem eiga í vandræðum og það er helst gert með því að sameina tvo af bönkunum í einn stóran banka.

Þá er einnig talið óumflýjanlegt að lækka rekstrarkostnað verulega við þessar breytingar til að styrkja bankana. Það yrði helst gert með því að fækka starfsfólki og lækka laun.

Rætt hefur verið sérstaklega hvernig mögulegt verði að stíga þessi skref, með tilliti til samkeppnissjónarmiða en endanlegar útfærslur liggja ekki fyrir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert