Var talinn valdur að brunanum

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Karlmaður, sem slasaðist alvarlega þegar eldur kom upp í íbúð sem hann leigði í Reykjavík árið 2002, tapaði í dag skaðabótamáli sem hann höfðaði á hendur leigusalanum. Maðurinn taldi að brunavörnum í íbúðunni hefði verið ábótavant en Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu, að kröfum um brunavarnir hafi verið fullnægt.

Leigandinn krafðist rúmlega 11 milljóna króna í bætur af hálfu leigusalans. Fram kemur í dómnum, að maðurinn slasaðist mikið þegar eldur kom upp í risíbúð, sem hann leigði við Laugaveg í maí 2002. Maðurinn hlaut 2. og 3. stigs bruna á 35% líkamsyfirborós, fyrst og fremst á höndum, handleggjum, höfði og baki. Hann lá í rúma 6 mánuði á Landspítalanum þar sem hann fór í endurteknar aðgerðir til að græða húð á hendur og handleggi en einnig á höfuð, háls og bak. Þá missti hann framan af öllum fingrum og tvo fingur alveg.

Maðurinn lá lengi á Landspítalanum og var síðan í hálft ár á Reykjalundi í kjölfarið. Varanleg örorka hans er metin 60%.

Í dómnum segir, að niðurstaða vettvangsskoðunar lögreglu hafi verið sú að orsök eldsvoðans hafi verið röng  notkun á rafmagnstækjum en pottur gleymdist á eldavélarhellu og eldur kviknaði í innihaldinu og síðan í vegg íbúðarinnar.  Fram kemur einnig að maðurinn hafi verið ölvaður. Segir í dómnum að ekki verði annað séð en að upptök eldsins verði rakin til gáleysis leigjandans sjálfs.

Þá segir dómurinn, að ekki hafi verið sýnt fram á að slysið verði á neinn hátt rakið til athafna eða athafnaleysis leigusalans og hann hafi ekki getað komið í veg fyrir þá atburðarás sem átti sér stað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert