Norðurlöndin og Bresku Jómfrúreyjarnar hafa samþykkt að undirrita samninga um upplýsingaskipti og auk þess röð viðskiptasamninga í maí. Samningarnir um upplýsingaskipti eru liður í herferð sem miðar að því að efla aðgerðir gegn skattsvikum.
Samningarnir um skipti á skattaupplýsingum munu veita skattayfirvöldum aðgang að upplýsingum um aðila sem leitast við að komast hjá því að greiða skatta af tekjum og fjárfestingum og einnig veita upplýsingar um eignir sem ekki hafa verið gefnar upp í heimalandinu. Meðal annars er þar um að ræða upplýsingar um eignarhald á fyrirtækjum, samningamenn, stjórnarmenn og þá sem þiggja arð af eignarhaldsfélögum, auk upplýsinga í vörslu banka og fjármálastofnana, að því er segir í tilkynningu.
Samningarnir verða undirritaðir við athöfn sem haldin verður í tengslum við fund fjármálaráðherra Norðurlandaráðs í Reykjavík þann 18.maí. Áður en samningarnir verða undirritaðir þarf að ljúka ákveðnu pólitísku ferli.
Samningarnir eru hluti af viðamiklu verkefni og hafa Norðurlöndin þegar gert slíka samninga við eyjarnar Mön, Jersey og Guernsey og þá verða einnig undirritaðir samningar við Cayman eyjar og Bermúda í apríl. Ennfremur eru samningaviðræður á lokastigi við stjórnvöld á Arúba og Hollensku Antillaeyjunum. Einnig eru hafnar viðræður við önnur lögsagnarumdæmi.
Með samningunum við Norðurlöndin, halda Bresku Jómfrúareyjarnar áfram að innleiða OECD staðla um gegnsæi og upplýsingaskipti. Bresku Jómfrúareyjarnar samþykktu OECD staðlana þegar árið 2002 og sama ár gerðu þær sinn fyrsta samning um upplýsingaskipti við Bandaríkin. Bresku Jómfrúreyjarnar gerðu einnig þannig samninga við Ástralíu og Bretland árið 2008.