Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði á aukaársfundi sambandsins í dag að enginn vafi sé á að siðferðilegur og fjárhagslegur trúverðugleiki lífeyrissjóðanna hafi beðið álitshnekki í kjölfar bankahrunsins og við því þurfi að bregðast.
„Lífeyrissjóðirnir eru hluti af umsömdum og kjarasamningsbundnum réttindum og það er þess vegna sem stjórnir þeirra eru kjörnar af stéttarfélögum og atvinnurekendum að jöfnu. Þessir aðilar bera því ríka ábyrgð á allri starfsemi lífeyrissjóðanna og við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að félagsmenn okkar beina sjónum sínum einkum að okkar fulltrúum í stjórnum þeirra og síður að fulltrúum atvinnurekenda. Það er að mörgu leyti eðlilegt og þess vegna verðum við að beita okkur fyrir því að settar verði skýrar reglur um aukið gagnsæi, siðferði og trúverðugleika í starfi þeirra," sagði Gylfi.
Tillaga um slíkar reglur liggja fyrir aukaársfundinum frá lífeyrisnefnd ASÍ. Sagði Gylfi, að slíkar reglur þurfi að ná jafnt til fjárfestingarstefnu og daglegrar starfsemi sjóðanna, þar með talið til starfskjara, gjafa, risnu og ferðalaga.
Setningarræða Gylfa Arnbjörnssonar