Danski flugherinn, sem sinnir nú loftrýmisgæslu yfir og í kringum Ísland, bægði eftir í hádegi í dag tveimur rússneskum sprengjuflugvélum frá, en þær stefndu þá inn í íslenska loftrýmið. Þegar vélarnar sáust á ratsjám fóru tvær danskar F-16 þotur á loft frá Keflavíkurflugvelli.
Á heimasíðu danska flughersins segir, að bæði þeir sem fylgdust með ratsjánum og flugmenn dönsku orrustuvélanna hafi oft tekið þátt í svipuðum aðgerðum þegar rússneskir „birnir," eins og rússnesku vélarnar eru nefndar, nálgast danska loftrýmið. „Þeir þekkja þetta eins og fingurna á sér og það eru sömu handtökin að sjá flugvélarnar og fljúga á móti þeim við Ísland eins og í Danmörku," segir á heimasíðunni.
Andrúmsloftið var þó þrungið nokkurri spennu í stjórnstöðinni þegar Rússarnir sáust á ratsjárskerminum. Þegar rússnesku vélarnar voru komnar nógu nálægt Íslandi héldu F-16 vélarnar af stað til að mæta Rússunum utan við íslensku lofthelgina. Aðgerðin fór fram í samræmi við starfsreglur NATO og í samvinnu við Varnarmálastofnunina.
Rússnesku flugvélarnar snéru við þegar þær voru um það bil 100 km fyrir norðan Ísland og héldu til bækistöðva sinna á Kólaskaga. En áður en Rússarnir kvöddu alveg flugu dönsku flugmennirnir upp að vélunum og tóku af þeim myndir. Dönsku flugvélarnar lentu aftur í Keflavík eftir tæplega klukkustundar flug.
Á heimasíðu danska flughersins er myndskeið af rússnesku vélunum.