Breikkun Suðurlandsvegar kostar 15,9 milljarða

Suðurlandsvegur í Svínahrauni
Suðurlandsvegur í Svínahrauni

Sam­gönguráðherra og vega­mála­stjóri hafa samþykkt til­hög­un áætl­un­ar um tvö­föld­un Suður­lands­veg­ar. Leiðin milli Reykja­vík­ur og Sel­foss yrði 2+2 veg­ur að und­an­tekn­um kafla í Svína­hrauni og á Hell­is­heiði sem yrði 2+1 veg­ur, en þá er um eina auka­ak­rein að ræða. Heild­ar­kostnaður við verkið er áætlaður kring­um 15,9 millj­arðar króna. Fyrsti hluti verk­efn­is­ins verður boðinn út síðar á ár­inu.

Kristján L. Möller sam­gönguráðherra og Hreinn Har­alds­son vega­mála­stjóri hafa kynnt full­trú­um nokk­urra sveit­ar­stjórna á Suður­landi og Sam­taka sveit­ar­fé­laga á Suður­landi til­lög­ur og áætlan­ir um hvernig hagað verður tvö­föld­un Suður­lands­veg­ar. Meg­in­hluti leiðar­inn­ar verður 2+2 veg­ur en kafl­inn milli Litlu kaffi­stof­unn­ar og Kamba­brún­ar verður 2+1 veg­ur með aðskild­um akst­urs­stefn­um þar sem veg­breidd er 15,5 metr­ar, að því er seg­ir í til­kynn­ingu.

 „Þar sem Suður­lands­veg­ur er með 2+2 sniði verður þversnið hans breitt, með 11 metra miðju­svæði, sem er sams kon­ar til­hög­un og á Reykja­nes­braut. Þar sem aðstæður eru þröng­ar, til dæm­is á kafla við Rauðavatn, verður veg­ur­inn með svo­kölluðu þröngu vegsniði, þ.e. með aðskild­um akst­urs­stefn­um með vegriði og 2+2 kafli um Kamba verður einnig með þeirri til­hög­un.

2+1 kafl­inn milli Litlu kaffi­stof­unn­ar og Kamba­brún­ar verður með vegriði en breiðari en nú­ver­andi 2+1 kafli í Svína­hrauni. Einnig stend­ur til að breikka þann 2+1 kafla um einn og hálf­an metra, úr 14 metr­um í 15,5," sam­kvæmt til­kynn­ingu.

Einn millj­arður í verk­efnið í ár

Heild­ar­kostnaður við verkið er áætlaður kring­um 15,9 millj­arðar króna, eins og áður sagði. Til ráðstöf­un­ar á þessu ári verður kring­um einn millj­arður og verður fyrst boðinn út tvö­föld­un kafl­ans milli Lög­bergs­brekku og Litlu kaffi­stof­unn­ar og síðan kafli næst Vest­ur­lands­vegi.

Meðal­um­ferð á dag er mis­jöfn um hina ýmsu kafla Suður­lands­veg­ar og ræður hún meðal ann­ars ákvörðun um út­færslu veg­ar­ins og hvort vega­mót eru mis­læg, á hring­torgi eða í plani. Um­ferð næst höfuðborg­inni er tæp­lega 13 þúsund bíl­ar en er kom­in niður í um 8 þúsund bíla við Lög­bergs­brekku. Á kafl­an­um milli Lög­bergs­brekku og Kamba­brún­ar er meðal dags­um­ferðin um 6.500 bíl­ar og um 7.300 milli Hvera­gerðis og Sel­foss, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá sam­gönguráðuneyt­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert