Fréttaskýring: Búist við að dragi úr atvinnuleysi í maí

mbl.is/Júlíus

Atvinnuleysið hefur haldið áfram að vaxa í mars en talsvert hefur dregið úr nýskráningum miðað við fyrri mánuði.

Að sögn Karls Sigurðssonar, forstöðumanns vinnumálasviðs Vinnumálastofnunar, sýnist honum að atvinnuleysi í mars verði 9% af áætluðum vinnuafla í landinu. Atvinnuleysið var 8,2% í febrúar, 6,6% í janúar og 4,8% í desember og 3,3% að jafnaði í nóvember. Þessar tölur staðfesta að dregið hefur úr hraða atvinnuleysisins. Karl segir að fjölgun fólks á atvinnuleysisskrá sé í takt við það sem spáð hefur verið. Miðað við ýtrustu spár mun atvinnuleysið verða komið í 9,6% í maí. Þá er talið að toppnum verði náð og atvinnulausum fari að fækka.

Námsmenn áhyggjuefni

Eitt helsta áhyggjuefnið nú er hvernig gangi að útvega námsmönnum sumarvinnu. Að sögn Karls er unnið að þessu verkefni á vegum sveitarfélaga og annarra aðila, en óvíst er á þessari stundu hver útkoman verður. Karl segir að allir voni að námsmenn þurfi ekki að fara á atvinnuleysisskrá í stórum stíl.

Bótaréttur skólafólks er mjög mismunandi og einstaklingsbundin, og byggist aðallega á sumarvinnu.

Ef nemarnir hafa unnið tvö sumur, eða þrjá mánuði samtals hið minnsta, eru þeir komnir með lágmarksbótarétt, sem er 25% af atvinnuleysisbótum, sem eru tæplega 150 þúsund krónur. Bótaréttur safnast síðan upp eftir því hve mikið viðkomandi hefur unnið á sumrin og með námi. Karl segir að þegar fólk útskrifist úr háskóla sé ekki óalgengt að það hafi unnið sér inn 75-80% bótarétt.

Alls eru 175 þúsund manns á íslenskum vinnumarkaði, samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar. Eru þá allir meðtaldir, hvort sem þeir vinna eina klukkustund á viku eða 50 klukkustundir. Þetta er sú tala sem miðað er við þegar prósentutala atvinnuleysis er reiknuð út. Í gær voru tæplega 17.500 skráðir atvinnulausir vef Vinnumálastofnunar. Samkvæmt þeirri tölu ætti atvinnuleysið að vera um 10% af vinnuafli. En hafa verður í huga að margir á skránni eru í hlutastarfi og fá því hlutabætur á móti hlutagreiðslum fyrir vinnu sína. Þumalputtareglan er að draga 10% frá þessari tölu og þannig fæst að atvinnuleysið nú er um 9%.

Að sögn Karls hefur ein hópuppsögn borist í mars, frá Straumi-Burðarási, sem sagði upp 45 manns. Hann telur líklegt að hópuppsögn berist fyrir mánaðamótin í kjölfar þess að SPRON hætti starfsemi

Atvinnuleysið nú hefur slegið öll fyrri met frá því byrjað var að skrá atvinnuleysi hjá Hagstofunni árið 1980. Hæst fór atvinnuleysið áður í janúar 1994, þegar það mældist 7,5%. Í þeim mánuði voru mjög erfiðar aðstæður í fiskvinnslu hér á landi, sem skýrir þessa háu tölu. Ársmeðaltalið fyrir árið 1995 var 5% atvinnuleysi.

Atvinnuleysi var mjög mikið á fyrstu árum síðustu aldar og í kreppunni miklu um 1930. Ekki er gerlegt að bera saman ástandið þá og nú.

Eins var mjög mikið atvinnuleysi á árunum 1967 til 1970 í kjölfar þess að síldveiðar brugðust gjörsamlega. Á þeim tíma var skráning atvinnuleysis í höndum sveitarfélaganna og hún með misjöfnum hætti.

Fjöldi atvinnulausra á skrá hjá Vinnumálastofnun:

25. nóvember 2008

6.441

17. desember 2008

9.056

23. janúar 2009

12.414

23. febrúar 2009

15.796

24. mars 2009

17.409

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert