Byssa fannst í fórum ungs drengs

Frá Blönduósi
Frá Blönduósi Jón Sigurðsson

Byssa fannst í fór­um ungs drengs á Blönduósi í fyrra­dag og reynd­ist hann hafa tekið hana í óleyfi af heim­ili sínu. Um var að ræða svo­kallaða fjár­byssu sem notuð er til að af­lífa búfé. Dreng­ur­inn, sem er 13 ára gam­all, hafði tekið byss­una með sér á íþróttaæf­ingu utan skóla­tíma, að því er virðist til að sýna fé­lög­um sín­um hana.

Að sögn lög­regl­unn­ar á Blönduósi var byss­an ekki hlaðin í fór­um drengs­ins og hafði hann ekki aðgang að kúl­um á heim­ili sínu. Því var ekki eig­in­leg hætta á ferðinni og hafði dreng­ur­inn eng­ar fyr­ir­ætlan­ir um að nota vopnið þótt hann hefði það á sér og hafði hvorki tekið byss­una upp né ógnað nein­um á nokk­urn hátt.  Málið er þó litið al­var­leg­um aug­um og verður byss­unni senni­lega eytt að sögn lög­reglu.

Dómgreind­ar­skort­ur en ekki ill­ur vilji

Þór­halla Guðbjarts­dótt­ir, skóla­stjóri Grunn­skól­ans á Blönduósi seg­ir að skóla­yf­ir­völd hafi haft sam­band við for­eldra þeirra drengja sem voru á fót­boltaæf­ingu þegar byss­an fannst til að til­kynna þeim hvað hefði gerst og hvetja þá til að ræða mál­in við börn­in. Í gær ræddu kenn­ar­ar einnig málið við börn­in í skól­an­um, m.a. til að gera þeim grein fyr­ir hætt­unni sem geti stafað af mis­notk­un slíkra vopna.

„Við reynd­um að fara með þetta þannig að eng­ar sög­ur færu af stað og þau væru ekki í vafa um hvað hefði gerst,“ seg­ir Þór­halla. „Við vökt­um at­hygli á því að þetta væri grafal­var­legt mál, við höf­um ekk­ert dregið úr því, en vild­um líka full­vissa þau um að eng­in hætta hefði verið á ferðum.“ Hún seg­ir ljóst að um dómgreind­ar­skort hafi verið að ræða hjá drengn­um en hann hafi ekki haft neitt mis­jafnt í huga.

Kinda­byss­an var óskráð og má gera ráð fyr­ir að fjöldi sam­bæri­legra vopna sé til óskráður í land­inu, enda áttu marg­ir slík­ar byss­ur áður en skrán­ing þeirra var bund­in í lög. Lög­regl­an á Blönduósi held­ur vopn­inu á meðan vinnsla máls­ins stend­ur yfir og seg­ir senni­leg­ast að því verði eytt að því loknu. Dreng­ur­inn tók byss­una sem fyrr seg­ir í leyf­is­leysi af heim­ili sínu en sam­kvæmt lög­um eiga öll skot­vopn að vera geymd í læstri hirslu og á það einnig við um fjár­byss­ur.

DV greindi frá mál­inu í morg­un.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert