Byssa fannst í fórum ungs drengs

Frá Blönduósi
Frá Blönduósi Jón Sigurðsson

Byssa fannst í fórum ungs drengs á Blönduósi í fyrradag og reyndist hann hafa tekið hana í óleyfi af heimili sínu. Um var að ræða svokallaða fjárbyssu sem notuð er til að aflífa búfé. Drengurinn, sem er 13 ára gamall, hafði tekið byssuna með sér á íþróttaæfingu utan skólatíma, að því er virðist til að sýna félögum sínum hana.

Að sögn lögreglunnar á Blönduósi var byssan ekki hlaðin í fórum drengsins og hafði hann ekki aðgang að kúlum á heimili sínu. Því var ekki eiginleg hætta á ferðinni og hafði drengurinn engar fyrirætlanir um að nota vopnið þótt hann hefði það á sér og hafði hvorki tekið byssuna upp né ógnað neinum á nokkurn hátt.  Málið er þó litið alvarlegum augum og verður byssunni sennilega eytt að sögn lögreglu.

Dómgreindarskortur en ekki illur vilji

Þórhalla Guðbjartsdóttir, skólastjóri Grunnskólans á Blönduósi segir að skólayfirvöld hafi haft samband við foreldra þeirra drengja sem voru á fótboltaæfingu þegar byssan fannst til að tilkynna þeim hvað hefði gerst og hvetja þá til að ræða málin við börnin. Í gær ræddu kennarar einnig málið við börnin í skólanum, m.a. til að gera þeim grein fyrir hættunni sem geti stafað af misnotkun slíkra vopna.

„Við reyndum að fara með þetta þannig að engar sögur færu af stað og þau væru ekki í vafa um hvað hefði gerst,“ segir Þórhalla. „Við vöktum athygli á því að þetta væri grafalvarlegt mál, við höfum ekkert dregið úr því, en vildum líka fullvissa þau um að engin hætta hefði verið á ferðum.“ Hún segir ljóst að um dómgreindarskort hafi verið að ræða hjá drengnum en hann hafi ekki haft neitt misjafnt í huga.

Kindabyssan var óskráð og má gera ráð fyrir að fjöldi sambærilegra vopna sé til óskráður í landinu, enda áttu margir slíkar byssur áður en skráning þeirra var bundin í lög. Lögreglan á Blönduósi heldur vopninu á meðan vinnsla málsins stendur yfir og segir sennilegast að því verði eytt að því loknu. Drengurinn tók byssuna sem fyrr segir í leyfisleysi af heimili sínu en samkvæmt lögum eiga öll skotvopn að vera geymd í læstri hirslu og á það einnig við um fjárbyssur.

DV greindi frá málinu í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert