Edda Rós Karlsdóttir, hagfræðingur, segir að reynslan kenni að það taki að meðaltali fimm ár fyrir atvinnuleysi að ná hámarki í stórum fjármálakreppum. Hún segir gylliboð fyrir kosningar um afnám verðtryggingar óraunhæft ef fólk vilji halda í krónuna. Verðtryggingu hafi verið komið á til að gera okkur kleift að viðhalda krónunni og Íslendingar vilji ekki snúa til baka í það ástand sem ríkti um 1980.
Edda Rós sem flutti erindi á aukaársfundi ASÍ í morgun segir aðildarumsókn að ESB nauðsynlega til að endureisa trúverðugleika þjóðarinnar en það sé þó engin töfralausn. Hún bendir á að erlend lán íslensku þjóðarinnar hefðu hækkað um 25 prósent þótt Íslendingar hefðu haft evru. Stór hluti lána þjóðarinnar sé í jenum og svissneskum frönkum þótt tekjurnar séu að mestu í evrum. Bankar, fyrirtæki og heimili hafi tekið stórkostlega gengisáhættu .
Edda Rós segir aðildarumsókn að Evrópusambandinu þó grundvallaratriði fyrir trúverðugleika landsins. En aðildarumsókn verði að vera yfirlýst stefna stjórnvalda og borin upp af heilum hug. Þjóðin þurfi að horfast í augu við að evran sé engin töfralausn. Hún sé þó góður kostur ef þjóðin eigi geta komist hratt og vel út úr fjármálakreppunni. Henni þurfi þó að fylgja agi í ríkisfjármálum. Annars geti afleiðingarnar orðið afdrifaríkar.