Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra tilkynnti í gær að Kaarlo Vilho Jännäri, fyrrverandi forstjóri finnska fjármálaeftirlitsins, mundi skila af sér skýrslu öðrum hvorum megin við næstu helgi, um lög og eftirlit á íslenska fjármálamarkaðnum. Jännäri, sem haft hefur aðsetur í húsnæði FME, muni benda á ýmislegt sem geti betur farið, en hins vegar muni það bíða fram yfir kosningar að bregðast við þeim tillögum. „Eitthvað verður hægt að gera strax þó, til dæmis með breytingum hjá eftirlitsstofnunum,“ sagði Gylfi.
Hann sagði einnig frá því að forsvarsmenn FME og hinn sérstaki saksóknari hefðu komið sér saman um samskiptareglur. Samskipti þessara tveggja embætti ættu nú að komast í ágætan farveg. „Það er búið að setja reglur sem greiða fyrir upplýsingaflæði, stuðla að auknum skilningi á verkaskiptingu og koma í veg fyrir samtímis rannsókn á fleiri en einum stað,“ sagði Gylfi. Stofnanirnar munu eiga með sér reglulega samráðsfundi til að fara yfir gang mála. Þessar reglur verða birtar á vef Fjármálaeftirlitsins að sögn Gylfa.
Hann lýsti ánægju með að Alþingi hefði afgreitt frumvarp sem rýmkaði upplýsingaskyldu FME, en þingið hefur enn til meðferðar frumvörp til breytinga á hlutafélaga- og einkahlutafélagalögum, auk frumvarps til breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, þar sem tekið er á því hvernig fara eigi með slit slíkra fyrirtækja, sem farið hafa í þrot á umliðnum mánuðum. Þau frumvörp eru í viðskiptanefnd Alþingis sem stendur.