Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á aukaársfundi ASÍ í dag, að útreikningar sýndu að tillaga um niðurfellingu 20% skulda bæði einstaklinga og fyrirtækja yrði einhver mesta eignatilfærsla frá einstaklingum til fyrirtækja, sem farið hafi fram.
„Tillagan um að fella niður 20% af öllum skuldum, bæði heimila og fyrirtækja yrði reyndar einhver mesta eignatilfærsla frá einstaklingum til fyrirtækja sem hér hefði farið fram. Skuldir fyrirtækjanna eru margfaldar á við skuldir einstaklinga og því færu útgjöld ríkisins vegan þessa fyrst og fremst til fyrirtækja. Skatturinn yrði hinsvegar greiddur af launþegum þessa lands," sagði Jóhanna.
Hún sagði að sér reiknaðist til að heildarkostnaður vegna þess yðri milli 800-900 milljarðar króna, ríflega 10 milljónir á hverja 4 manna fjölskyldu í landinu. Til samanburðar nefndi hún að skuldir ríkissjóðs, ekki síst vegna fjármálahrunsins, verði í lok þessa árs um 1100 milljarðar.
Jóhanna sagði, að útreikningar Seðlabankans sýndu, að bæði tillagan um 20% niðurfellingu skulda og tillaga um 4 milljóna króna niðurfellingu skulda myndu kosta 300 milljarða króna, eingöngu vegna húsnæðislána. Báðar tillögurnar væru því marki brenndar, að að aðeins um helmingur niðurgreiðslunnar færi til þeirra, sem væru í alvarlegum vandræðum en stærstur hluti til þeirra sem hefðu 5 milljónir eða meira í eigin fé. Með slíkum aðgerðum væri verið að binda langan skuldaklafa á börn okkar og barnabörn um langan tíma.
Jóhanna sagði, einnig m.a. að skoða eigi alvarlega sameiningu ráðuneyta, einkum atvinnu- og efnahagsráðuneyta. Þá yrði ráðist gegn skattaundandrætti og lokun skattaskjóla og byggt upp réttlátara skattkerfi þar sem byrðarnar verði lagðar á þá sem mest hafa.
Þá sagði Jóhanna, að sækja yrði um aðild að Evrópusambandinu.