Laun lækkuð hjá Orkuveitunni

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.

Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur kynnti starfsfólki fyrirtækisins í dag víðtækar aðhaldsaðgerðir í rekstri Orkuveitunnar og dótturfélaga hennar.  Aðgerðirnar fela meðal annars í sér almennar launabreytingar þar sem laun stjórnenda lækka mest en laun undir 300 þúsundum á mánuði skerðast ekki.

Fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins, að þessi ákvörðun sé tímabundin og fundað hafi verið með forsvarsfólki stéttarfélaga starfsmanna vegna hennar. Gripið er til aðgerðanna vegna áhrifa efnahagskreppunnar á tekjur fyrirtækisins og gjöld. Áhersla sé lögð á verja grunnþjónustu fyrirtækisins og störf starfsfólks.

Þar segir jafnframt, að efnahagsástandið hafi haft þau áhrif á rekstur Orkuveitu Reykjavíkur að tekjur hafi minnkað og útgjöld vegna aðfanga hafa aukist.  Fjárhagsáætlun yfirstandandi árs hafi nú verið endurskoðuð og feli hún í sér að gripið sé til sparnaðar á öllum sviðum rekstursins. Starfsfólk verði virkjað á næstu vikum til þátttöku í aðhaldsaðgerðunum.

Í samræmi við almennt samkomulag á vinnumarkaði munu launahækkanir, sem ráðgerðar voru 1. mars, ekki  koma til framkvæmda. Þá verða samningar um föst laun yfir 300 þúsund krónum á mánuði endurskoðaðir. Á næstu dögum verður unnið að endurskoðun samninga um föst laun í því skyni að ná fram ráðgerðum sparnaði. Þá er áformað að lækka laun stjórnarmanna OR.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert