Að öllum líkindum er óhjákvæmilegt að skerða lífeyrisréttindi Lífeyrissjóðs Vestfjarða nú, en
ekki liggur fyrir hversu mikil sú skerðing verður. Væntanlega munu
lífeyrisgreiðslur ekki lækka niður í það sem þær voru í ársbyrjun 2008.
Þetta kemur fram á vef sjóðsins.
„Tryggingafræðileg úttekt Lífeyrissjóðs Vestfirðinga miðað við síðustu
áramót liggur nú fyrir. Eins og hjá flestum öðrum lífeyrissjóðum hefur
orðið töluverð lækkun á eignum sjóðsins. Þær efnahagslegu hamfarir, sem
gengið hafa yfir þjóðfélagið og raunar um heim allan hafa að sjálfsögðu
mikil áhrif á stofnanir eins og lífeyrissjóði.
Undanfarin ár hafa verið lífeyrissjóðunum mjög hagfelld og
lífeyrisréttindi sjóðfélaga verið hækkuð verulega umfram verðbólgu um
margra ára skeið. Lífeyrissréttindi sjóðfélaga í Lífeyrissjóði
Vestfirðinga hafa verið hækkað um 22,4% frá árinu 2002 umfram hækkun
vísitölu neysluverðs. Rétt er að halda því til haga að lífeyrir fylgir
ávallt hækkunum á vísitölu neysluverðs og hefur því hækkað um 18,8 %
frá 1. janúar 2008, sem er mun meira en laun á almennum vinnumarkaði," að því er segir á vef sjóðsins.
Ýmsir áhættulitlir fjárfestingakostir urðu fyrir skakkaföllum
Þar segir að verkefni stjórnar Lífeyrissjóðs Vestfirðinga sé að ávaxta fé sjóðsins sem best og öruggast. „Rétt er að benda á að sjóðurinn hefur dreift áhættu sinni mjög mikið undanfarin ár, en ýmsir fjárfestingarkostir sem þóttu áhættulitlir urðu fyrir skakkaföllum í bankahruninu, en ekki má gleyma þeim hagnaði sem sjóðfélagar hafa þegar haft vegna góðrar ávöxtunar undanfarinna ára."