Spánverjar líta til íslenskra kvenna

Spánverjar veita því athygli að íslenskar konur taki við stjórnartaumunum
Spánverjar veita því athygli að íslenskar konur taki við stjórnartaumunum mbl.is/Kristinn

Spænska dagblaðið El País fjallar í dag um hlutdeild kynjanna í efnahagshruni heimsins og er þróun mála á Íslandi þar meðal annars nefnd til sögunnar. Blaðið vekur athygli á því að tvær konur, Birna Einarsdóttir og Elín Sigfúsdóttir, hafi verið látnar taka við stjórnartaumunum í stærstu bönkunum sem hrundu. Ekki nóg með það heldur hafi forsætisráðherra Íslands líka verið skipt út fyrir konu.

Spánverjar draga þannig fram hlutskipti íslenskra kvenna sem dæmi um það að þeim fari fjölgandi sem telja að betur væri ef konur hefðu meira að segja um efnahag og pólitík. „Stuttu eftir að Elín Sigfúsdóttir og Birna Einarsdóttir voru settar í stjórn íslensku bankanna tveggja sem féllu sagði talsmaður ríkisstjórnarinnar þar: „Er þetta ekki týpískt; karlmenn hafa valdið öngþveiti og nú verða konurnar að þrífa upp eftir þessa hörmung,“ segir í grein El País.

Bent er á að þetta eigi ekki bara við um Ísland; aðrir bankar og stórfyrirtæki sem hafi fallið eins og Lehman Brothers,Royal Bank of Scotland, AIG og Madoff hafi verið gagnrýnd fyrir að hafa allt of einhæfan hóp við stjórnartaumana: hvíta karlmenn, milli fimmtugs og sextugs, úr miðstétt og gott ef ekki flestir úr sömu skólunum líka.

Hafa ólíkan stíl

El País vitnar m.a. í Höllu Tómasdóttur, stjórnarformanns Auðar Capital. „Konur eru yfirleitt meðvitaðari um áhættuna. Þær setja siðferði, félagslega ábyrgð og góða stjórnskipan í forgrunn og beita bæði rökhyggju og tilfinningum,“ segir Halla í viðtali við blaðið. „Ég held því ekki fram að veröld skipuð konum sé betri en karlaveröldin, en ég er sannfærð um að það er þörf á meira jafnvægi á milli kynjanna ef við ætlum að byggja upp varanlegt efnahagslíf.“

Fjallað er um að kynjamunurinn felist meira í stjórnunarstíl en í grundvallarhugsun. Rannsóknir hafi sýnt að kvenstjórnendur kjósa frekar að vinna sér inn traust starfsfólks og hvetja það áfram með ríkum stuðningi á meðan karlstjórnendur aðhyllist frekar harðara kerfi sem verðlauni góðan árangur en refsi þeim sem ekki standi sig. Þó er tekið fram að ekki sé hægt að fullyrða og tvær frægar stjórnmálakonur nefndar sem dæmi; Angela Merkel Þýskalandskanslari sem þyki hafa það sem kalla megi kvenlegan stjórnunarstíl en hinsvegar Margaret Thatcher sem hafi haft harðari og karllægari stíl.

„Konur eiga það til að láta sig minna varða hver fær heiðurinn en helgi sig frekar því að leysa vandann. Það þýðir ekki að menn leysi ekki vandann líka, en flestir þeirra sjá til þess að það fari ekkert á milli mála hver reddaði því,“ hefur El País eftir prófessor við Harvard, Jeanne Shaheen.

Í ljósi alls þessa veltir blaðið upp þessari spurningu: Stæði heimurinn nú standa fyrir stærstu niðursveiflu síðan í kreppunni miklu ef estrogen hefði haft meira vægi umfram testosteron?

Grein El País í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert