Svekkt og sár yfir niðurstöðu ráðuneytisins

Frá Selfossi
Frá Selfossi mbl.is/Soffía

 „Við erum ofboðslega svekkt og sár yfir niðurstöðu menntamálaráðuneytisins. Það skilur enginn hvers vegna tveir aðalgerendurnir, sem þekktir eru í kerfinu fyrir ofbeldi og hafa nú verið dæmdir fyrir að ráðast á pilt á hjólabrettasvæði í apríl í fyrra með höggum og kúbeini, fá að vera áfram í skólanum. Skólastjórinn hefur sagt að hann geti ekki rekið þá vegna árásarinnar á son minn vegna stjórnsýslulaga. Ráðuneytið virðist telja að lögin séu skólastjóra í vil.“

Þetta segir Vilmundur Sigurðsson, faðir nemanda við Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem varð fyrir árás allt að 10 skólafélaga í hádegishléi 20. janúar síðastliðinn.

„Högg og spörk voru látin dynja á syni mínum þar til vinir hans áttuðu sig og komu honum til hjálpar. Þeir urðu einnig fyrir höggum. Sonur minn, sem var meira að segja bitinn, fékk ýmsa slæma áverka og heilahristing. Hann er enn í ójafnvægi og finnst erfitt að mæta árásarmönnunum sem aðeins var vikið úr skóla í þrjá daga í kjölfar árásarinnar, fyrst í einn dag tveimur dögum eftir árásina og síðan í tvo daga í vikunni á eftir.“

Menntamálaráðuneytið óskaði eftir gögnum og upplýsingum vegna málsins í kjölfar bréfs Vilmundar um árásina og viðbrögð skólayfirvalda. Vilmundur krafðist þess að þeim sem hlut ættu að máli yrði vísað úr skólanum. Í svarbréfi ráðuneytisins til Vilmundar segir að ekki verði annað séð af skýringum og viðbrögðum skólameistara en að leitast hafi verið við að upplýsa málsatvik með þeim hætti sem unnt var. Ekki sé tilefni til þess að ráðuneytið kanni frekar hvort skólameistari hafi að þessu leyti vanrækt starfsskyldur sínar eða leyst úr málinu með ótilhlýðilegum hætti.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert