Verða að biðjast afsökunar

Gylfi Arnbjörnsson setur aukaþing ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson setur aukaþing ASÍ. mbl.is/RAX

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði á aukaársfundi sambandsins í dag, að forsenda sáttar almennings og áhrifamanna í viðskipta- og atvinnulífi sé tvíþætt: Stjórnvöld taki á trúverðugan hátt á þeim sem báru ábyrgð á bankahruninu og þeir sem bera ábyrgðina biðji þjóðina afsökunar.

„Traust almennings á valdastofnunum og áhrifamönnum í viðskipta- og atvinnulífi er nánast horfið og sátt ekki í augsýn. Ómurinn af ásökunum Viðskiptaráðs og forstjóra stórfyrirtækjanna í garð stjórnvalda á undanförnum árum, um ofvaxinn eftirlitsliðnað, er enn í fersku minni og tillagan um arðgreiðslur hjá HB Granda bera ekki vott um breytt viðhorf.

Forsenda sáttar er að mínu mati tvíþætt. Annars vegar að stjórnvöld taki á trúverðugan og réttlátan hátt á þeim sem báru ábyrgð á hruni bankakerfisins en öll aðferðafræði við rannsókn á aðdraganda hrunsins til þessa  hefur verið í skötulíki. Hins vegar verða þeir sem bera ábyrgðina að biðja þjóðina afsökunar á því að hafa komið henni í þessa stöðu," sagði Gylfi. 

Gerðum ákveðin mistök

Hann sagði, að afstaða ASÍ hefði í haust verið sú, að stjórnvöld ættu að fá vinnufrið við slökkvistarfið í kjölfar bankahrunsins. Þegar í ljós kom að aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru veikburða og handahófskenndar og þeir sem báru ábyrgð á hrunini hefðu ekki verið látnir axla hana, hefði ASÍ krafist þess að gerðar yrðu umfangsmiklar breytingar innan ríkisstjórnar, Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.

„Engu af þessu var hrint í framkvæmd og reiðin magnaðist í samfélaginu. Um miðjan janúar var þolinmæði okkar á þrotum og miðstjórn ASÍ krafðist þess að ríkisstjórnin færi frá og að boðað yrði til kosninga. Eftir á að hyggja viðurkenni ég, að við gerðum ákveðin mistök í þessu ferli, sem rýrðu ímynd okkar og stöðu gagnvart félagsmönnnum og trúlega hefðum við átt að setja ríkisstjórninni stólinn fyrir dyrnar í byrjun desember í stað þess að bíða fram yfir áramót," sagði Gylfi.

Setningarræða Gylfa Arnbjörnssonar 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka