Verðmæt íslensk frímerki á uppboði

Gömul íslensk, frímerki hafa lengi verið eftirsótt erlendis og seljast …
Gömul íslensk, frímerki hafa lengi verið eftirsótt erlendis og seljast jafnan á margar milljónir

Uppboðsfyrirtækið Cavendish í London hefur nú undir höndum yfirgripsmikið safn íslenskra frímerkja sem boðið verður upp þann 23. apríl næstkomandi. Safnið átti Bretinn Angus Parker heitinn sem var ástríðufullur frímerkjasafnari og kortlagði nánast sögu póstþjónustu á Íslandi frá a-ö, þótt hann hafi að vísu aldrei komið til Íslands sjálfur.

Safnið hans af íslenskum frímerkjum er hinsvegar heimsfrægt og margra milljóna virði að sögn Magna Magnússonar, sem rak áður Frímerkja- og myntverslun Magna á Laugavegi. „Þetta safn er víðfrægt og þessi náungi var búinn að safna frá Íslandi í mörg ár og fékk verðlaun fyrir safnið sem hann sýndi hér,“ segir Magni og lýsir því hvernig Parker gætti safnsins verðmæta eins og sjáaldurs augna sinna.

 „Það var svolítið fyndið að hann þorði ekki að senda safnið með pósti, svo Jón Sólnes bankastjóri á Akureyri kom með safnið með sér. Hann var í London og kom með það hingað, en aftur á móti þurfti ég að skila því og fór með það í skjalatösku til baka. Þá var hann með ljósrit af safninu og fór yfir það hvort hvert og eitt einasta ítem hefði komið til baka.“

Magni segir að eflaust mæti Íslendingar á uppboðið til að fylla í gloppur í eigin frímerkjasafni, en þótt uppboðið sjálft byrji ekki fyrr en í lok apríl er þegar hægt að senda inn skrifleg tilboð. Búast má við því að það fari á margar milljónir króna og skýrir Magni það m.a. með því hversu smátt upplagið af íslenskum frímerkjum var í fyrstu eftir að fyrsta íslenska frímerkið var gefið út árið 1873. Þá voru gefin út s.k. skildingafrímerki í mismunandi verðgildum og eru mörg þeirra afar fágæt.

„Svoleiðis umslag með skildingafrímerki, það gengur á milljónir þegar það er selt á uppboðum,“ segir Magni. „Þannig að ef einhver finnur bréf frá langalangafa ofan í skúffu með skildingafrímerki þá eru þar mikil verðmæti. En það er oft vandamál að fólk finnur gömul umslög með frímerkjum og rífur þau af, en þá rífur það burt margar, margar milljónir,“ segir Magni og ítrekar fyrir fólki að halda gömlum umslögum til haga með frímerkjunum á en rífa þau ekki í sundur.

Skrá yfir safnið ásamt verðlista og myndum má sjá á uppboðssíðu Cavendish Auctions

16 skildinga frímerki voru sett á almenn bréf til Danmerkur …
16 skildinga frímerki voru sett á almenn bréf til Danmerkur sem vógu meira en 15 grömm
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka