Mikill eldur kom upp í bátasmiðjunni Sólplasti í gærkvöldi. Upptök eldsins voru í línubátnum Oddi á Nesi en ekki er vitað hvernig hann kviknaði. Báturinn var í viðgerð vegna elds sem upp kom í honum 17. febrúar sl. Hann átti að sjósetja á morgun.
Í febrúar kviknaði í stýrishúsi bátsins og var talið að kviknað hefði í út frá fjöltengi. Viðgerð á bátnum var að ljúka og átti að taka hann út í dag og sjósetja á morgun. Af því verður ekki enda báturinn talinn ónýtur eftir eldsvoðann í gærkvöldi.
Freyr Steinar Gunnlaugsson, eigandi bátsins, var að vonum vonsvikinn þegar mbl.is náði af honum tali. Bátinn keypti hann árið 2007 og gerði Freyr hann út frá Siglufirði undanfarin ár. Í vetur var hann þó staðsettur í Sandgerði, þar sem ógæfan dundi yfir. Freyr gat lítið sagt til um skemmdirnar enda hefur hann enn ekki fengið að fara um borð.
Slökkvilið Sandgerðis var fljótt á vettvang og varnaði því að eldurinn breiddist út. Notast var við gröfu við slökkvistörf og Oddur á Nesi dreginn með henni út úr skemmu Sólplasts. Í kjölfarið var eldurinn slökktur. Töluvert tjón varð einnig á húsinu.