Staða Íslands í Icesave deilunni var mjög þröng um miðjan nóvember. Var orðstír landsins verulega skaðaður og EES samningurinn í húfi, að því er kemur fram í minnisblaði, sem tekið var saman í utanríkisráðuneytinu og fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði frá.
Á þessum tíma stóðu yfir viðræður við önnur ríki um ábyrgðir á Icesave
reikningum og einnig um aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Íslensk
stjórnvöld héldu því fram að lagaleg óvissa ríkti um það hvort Ísland
ætti að ábyrgjast lágmarksinnstæður á Icesave reikningum eða ekki.
Engin önnur ríki tóku undir þennan málflutning og Ísland var einangrað
í deilunni, samkvæmt minnisblaðinu, sem Ríkisútvarpið vitnaði til.
Þar segir, að trúverðugleiki
landsins hafi beðið hnekki og á samráðsfundum í Brussel
hefði komið skýrt fram að þolinmæði Evrópusambandsríkja gagnvart Íslandi væri
nánast á þrotum. Útlit væri fyrir að fleiri ríki væru að bætast í hóp
þeirra sem vildu sýna Íslandi fyllstu hörku, þar á meðal Þýskaland.
Þunginn
í afstöðu ESB ríkja ykist með degi hverjum og jafnvel helstu
vinaþjóðir studdu ekki lengur Ísland, þar á meðal Norðurlandaþjóðirnar.
Þá hefðu sífellt fleiri kvartanir
hefðu borist framkvæmdastjórn ESB vegna íslensku bankanna og ljóst var
orðið að EES samningurinn var í húfi, næðust ekki samningar.
Þá segir utanríkisráðuneytið, að fölsk
fréttatilkynning Seðlabankans um lánafyrirgreiðslu frá Rússum hefði skaðað
trúverðugleika Íslands í Bandaríkjunum og á vettvangi NATO, þar sem
ýmsar getgátur voru uppi um trúverðugleika Íslands sem bandamanns.