Engin tillaga í ESB-skýrslu

Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins.
Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins.

Engin meginniðurstaða er í skýrslu Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins um það hvort sækja beri um aðild að Evrópusambandinu. Ekki er þó útilokað að nefndin leggi eina eða fleiri tillögur þar að lútandi fram á landsfundi flokksins sem hefst í dag.

Í skýrslunni eru tíundaðar niðurstöður sjö hópa sem unnið hafa með ólíka málaflokka og eru hóparnir gjarnan klofnir í afstöðu sinni. Hópurinn er fjallar um peningamálastjórn er sammála um að skipta þurfi út krónunni fyrir evru en klofnar í afstöðu til þess hvort hægt sé að gera það einhliða eða eingöngu í gegnum aðild að ESB.

Sá hópur er fjallar um náttúruauðlindir Íslands og yfirráð greinir frá þrenns konar sjónarmiðum, að Ísland eigi ekkert erindi í ESB, að aðeins verði samið um fullt forræði Íslands á auðlindum sínum og í þriðja lagi að ekki sé þörf á allsherjarundanþágu frá sjávarútvegsstefnu sambandsins.

Athygli vekur að utanríkis- og öryggismálahópur nefndarinnar telur ekkert mæla á móti aðild að sambandinu. Hópurinn sem fjallaði um atvinnuvegi bendir hins vegar á að sérstaklega þurfi að huga að tveimur atvinnugreinum í hugsanlegum aðildarviðræðum, landbúnaði og sjávarútvegi.

Þótt ekki séu lagðar skýrar línur í skýrslunni varðandi hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu eða ekki er ekki útilokað að tillögur þar að lútandi komi fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem hefst í dag. Að sögn Kristjáns Þórs Júlíussonar, formanns nefndarinnar, er nefndinni heimilt að leggja fleiri en eina tillögu fyrir landsfund flokksins ef ekki hefur náðst samstaða í nefndinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert