Hagsmunasamtök heimilanna undirbúa málsókn

Hagsmunasamtök heimilanna telja nauðsynlegt að dómstólar taki afstöðu til lögmætis skilmála verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána í ljósi þess hve forsendur þessara lána hafa breyst gríðarlega. Samtökin undirbúa nú málsókn gegn fjármálastofnunum til að láta reyna á neytendasjónarmið.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú um nokkurt skeið átt í viðræðum við stjórnvöld, forystufólk í stjórnmálaflokkum sem og lánastofnanir um aðgerðir í þágu heimilanna. Auk þess hafa samtökin fylgst náið með umræðunni og yfirlýsingum þessara aðila um þessi málefni og leitast við að koma sjónarhorni og kröfugerð sinni á framfæri við fjölmiðla. 
 
„Það er þyngra en tárum tekur að stjórnvöld skuli ekki hafa í hyggju, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur samtakanna, að eiga frumkvæði að leiðréttingu ósanngjarnra og hugsanlega ólöglegra hækkana höfuðstóla lána, í formi hvoru tveggja gengis- og verðtryggingar. Þvert á móti stefnir í að umræddar hækkanir eigi að mynda grunn fyrir stórfellda eignaupptöku fjármálastofnana á heimilum landsmanna. Stofnana sem flestar eru nú í ríkiseigu eða í gjörgæslu ríkisins með einum eða öðrum hætti,“ segir í tilkynningu samtakanna.

Þá segir að stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna óttist að innheimta eigi lán heimilanna að fullu til að fjármagna skuldir fyrirtækja og fjármálastofnana sem ekki fást greiddar. Það virðist vera ætlun stjórnvalda að endurfjármagna þannig bankakerfið með fasteignum heimilanna.
  
Hagsmunasamtök heimilanna telja nauðsynlegt að fá dómsniðurstöðu vegna lánaskilmála í ljósi þess hve forsendur hafi breyst. Slík málsókn sé mikilvæg til láta reyna á neytendasjónarmið, þar sem annar aðili í lánasamningi hafi sjaldnast nokkra sérþekkingu á lánamálum, hugsanlega breytingu höfuðstóls lánanna til langs eða skamms tíma eða geti haft á nokkurn hátt áhrif á slíka þróun, meðan hinn aðilinn hefur öll tök á að hafa áhrif á forsendur lánasamningsins sér í hag. Undirbúningur að málsókn er þegar hafinn og vonast samtökin til að fá nokkra einstaklinga til að taka þátt í slíkri lögsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert