Lýðræðismálin verða eftir

Alþingi Íslendinga.
Alþingi Íslendinga.

Ekki sér fyrir endann á meðferð allsherjarnefndar á frumvarpi um persónukjör í þingkosningum. Ljóst er að það kemst ekki lengra í meðförum þingsins fyrir kosningar. Árni Páll Árnason nefndarformaður segir að gangur málsins verði ekki greiður fyrst Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið skýra afstöðu á móti og fyrir liggi úrskurður um að tvo þriðju hluta þingmanna þurfi til að samþykkja það. Þar að auki þurfi að taka tillit til tilmæla ÖSE, þess efnis að ekki skuli breyta kosningalögum skömmu fyrir kosningar.

„Það orkar auðvitað mjög tvímælis að láta atkvæði ganga um leikreglur þegar leikur er hafinn,“ segir Árni og vísar til þess að kosning er hafin utan kjörfundar. Gæta þurfi þess að mál sem þetta fái boðlega þinglega meðferð.

Engin niðurstaða varð heldur á fundi stjórnarskrárnefndar í gær og ekki útlit fyrir að boðaðar breytingar á stjórnarskránni nái fram að ganga á þessu þingi, að sögn Valgerðar Sverrisdóttur nefndarformanns. „Það er óhætt að kveða upp úr um að ekki verður samstaða um þetta mál í heild sinni, hugsanlega einhverjar greinar, en það á eftir að láta betur reyna á það,“ segir Valgerður, sem reiknar með að nefndin komi saman áður en þing verður kallað heim.

Hún vill ekki nefna einstök ágreiningsmál en kveður flestar athugasemdir hafa borist við þá tillögu að binda í stjórnarskrá að auðlindir séu eign þjóðarinnar. Einnig er ágreiningur uppi um stjórnlagaþing, eins og fram hefur komið, en vonir voru bundnar við að þingið kæmi saman á árinu.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert