Ofbeldi á börnum er algengara en margir halda. Tilkynningum til Barnaverndarstofu hefur fjölgað talsvert á umliðnum árum og voru um 20% allra tilkynninga á síðasta ári. Tilkynningum um sálrænt ofbeldi hefur fjölgað hvað mest. Félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu segir umfang andlegs skaða líklega meira en nokkurn geti grunað.
Árið 2004 bárust Barnaverndarstofu 804 tilkynningar vegna ofbeldis gagnvart barni eða 14,5% allra tilkynninga. Síðan hefur hlutfallið farið hratt hækkandi; árið 2006 var það 16,3% og 18,9% árið 2007. Tilkynningar um sálrænt ofbeldi voru 705 árið 2007 og voru þá 8,4% allra tilkynninga.
Meðal þess sem flokkast undir sálrænt ofbeldi er þegar barn verður vitni að heimilisofbeldi án þess að verða fyrir ofbeldi sjálft. Börn sem búa við heimilisofbeldi mótast af því hvort sem þau verða fyrir því eða ekki. Steinunn segir of marga grunlausa fyrir áhrifum sem slíkt getur haft á börn. Þau eru t.a.m. líklegri til að sýna af sér áhættuhegðun þegar þau verða eldri.
Árið 2007 komu 68 börn með mæðrum sínum í Kvennaathvarfið. Meðalaldur þeirra var fjögur ár – það yngsta nokkurra vikna gamalt – og 66% voru innan við sjö ára. Þar af höfðu tólf þeirra komið áður til dvalar. Sama ár hóf Barnaverndarstofa rannsókn á ofbeldi gagnvart börnum á Íslandi. Meðal þess sem fram kom í rannsókninni var að í um 90% tilvika þar sem tilkynnt var ofbeldi gagnvart barni 12 ára og yngra lék grunur á að gerandinn væri foreldri eða forráðamaður. Hjá 13 ára og eldri var hlutfallið hins vegar um fimmtíu prósent.
Brynjólfur Mogensen, yfirlæknir á slysa- og bráðasviði, segir ofbeldi gegn börnum algengara en margan gruni. Stærsta vandamálið sé hugsanlega að heilbrigðisstarfsmenn séu góðhjartaðir og trúi því einfaldlega ekki upp á nokkurn mann að leggja hendur á barn. Hann segir að vel sé fylgst með áverkum á börnum og sérstaklega athugað hvort saga foreldra komi heim og saman við áverka. Einnig er það skoðað vel ef börn koma oft með áverka.
Er bannað að refsa barni sínu með flengingu?
Hæstiréttur komst nýverið að þeirri niðurstöðu að í barnaverndarlögum sé ekki lagt fortakslaust bann við því að foreldri eða annar maður með samþykki þess beiti barn líkamlegum aðgerðum til að bregðast við óþægð. Fyrir Alþingi liggur frumvarp sem tekur af öll tvímæli.Í frumvarpinu segir að foreldrum sé óheimilt að beita barn sitt andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi, þ.m.t. andlegum eða líkamlegum refsingum. Þá feli forsjá í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.
Og hver verða viðurlögin við slíkum refsingum?
Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi skal sá sem beitir barn andlegum eða líkamlegum refsingum eða annarri vanvirðandi háttsemi, hótunum eða ógnunum sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum.