Ráðuneyti sinnti ekki rannsóknarskyldu

Urriðafoss í Þjórsá.
Urriðafoss í Þjórsá. mbl.is/Sigurður Jónsson

Tala þarf efnislega afstöðu til þess í samgönguráðuneytinu hvort samkomulag Landsvirkjunar við Flóahrepp, um gerð aðalskipulags vegna Urriðafossvirkjunar, standist ákvæði skipulags- og byggingarlaga. Með öðrum orðum, hvort Landsvirkjun hafi „keypt sér" skipulag í Flóahreppi. 

Í nýju áliti umboðsmanns Alþingis kemur fram að ráðuneyti hafi hvorki sinnt rannsóknarskyldu sinni né reglum stjórnsýslulaga um málshraða með fullnægjandi hætti, í kærumáli ábúenda í Skálmholti vegna samkomulagsins.

Borgar fyrir skipulagsgerðina

Ábúendurnir kærðu á síðasta ári og kröfðust þess að samkomulagið yrði ógilt eða lýst ólögmætt, enda felur það í sér að Landsvirkjun beri til dæmis allan kostnað af gerð deiliskipulags, endurbæti farsímakerfið á svæðinu, endurbyggi vegi, komi upp ferðamannaaðstöðu og veiti hreppnum 40 milljón króna eingreiðslu sem sveitarstjórn sjái um að ráðstafa.

Meginniðurstaða ráðuneytisins var að þótt efni samkomulagsins væri óvenjulegt félli það undir rétt sveitarstjórnar til að ráða sjálft málefnum sínum, samkvæmt 78. grein stjórnarskrárinnar. Í kjölfarið spurði umboðsmaður samgönguráðuneytið hvort það teldi samkomulagið samrýmast reglum skipulags- og byggingarlaga um greiðslu kostnaðar við gerð skipulags.

Ráðuneytið svaraði því til að ekki hefði farið fram sérstök athugun á því, af þess hálfu. Þess utan sagði í samkomulaginu að 40 milljón króna eingreiðslan skyldi „styðja við að landbúnaður og föst búseta verði styrkt og eftirsótt á svæðinu."

Taldi umboðsmaður því ekki útilokað að sveitarsjtórnarmenn hafi átt verulegra hagsmuna að gæta við ráðstöfun þessara fjármuna.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til samgönguráðuneytisins að það tæki málið til endurskoðunar, kæmi beiðni þar um frá ábúendunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert