Ný viðamikil, evrópsk rannsókn sýnir að íslenskir unglingar hafa nokkra sérstöðu hvað neyslu ávana- og vímuefna varðar. Umtalsvert fleiri unglingar á Íslandi hafa engin slík efni notað um ævina en í nokkru landi í Evrópu.
Reykingar unglinga eru fátíðari á Íslandi en í nær öllum öðrum löndum álfunnar og hvergi drekka færri unglingar áfengi. Raunar virðast unglingar á Íslandi að þessu leyti draga meiri dám af jafnöldum sínum í Bandaríkjunum en í Evrópu. Kannabisneysla íslenskra unglinga er jafnframt talsvert undir meðaltali Evrópu þótt sérstaða þeirra sé nokkru minni að því leyti en varðandi önnur vímuefni.
Þetta kemur fram í ESPAD rannsókn sem svo er nefnd, rannsókn á vímuefnaneyslu íslenskra unglinga í alþjóðlegum samanburði á árunum 1995-2007. Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri stjórnaði rannsókninni og kynnti hana í morgun.
Könnunin var gerð meðal nemenda í 10. bekk grunnskóla. Árið 1995, þegar hún var fyrst gerð, tóku 26 lönd þátt í fyrstu umferð samanburðarrannsóknar en á þeim tíma hefur ESPAD rannsóknin farið fram á fjögurra ára fresti. Fjórða umferð fór fram 2007 og þá voru þátttökulöndin 35 og fimm ný lönd bættust í hópinn árið 2008 og verða með þegar næstu töluvert verða birtar. En nýjustu tölur, sem kynntar voru í morgun, eru vel að merkja frá 2007.
Af öllum skráðum nemendum í 10. bekk íslenskra grunnskóla tóku 87% þátt 1995, 89% árið 1999, 82% árið 2003 og árið 2007 var hlutfallið 81%. Nær allir skólar á Íslandi tóku þátt.
Forvarnir og stóraukið foreldraeftirlit
Neysla íslenskra unglinga á ávana- og vímuefnum hefur dregist umtalsvert saman á undanförnum árum og segir Þóroddur að þakka megi öflugu fornvarnarstarfi þann árangur. Hins vegar beri þess að gæta að neysla unglinga á slíkum efnum skýrist að verulegu leyti af neyslu þeirra sem eldri eru og Ísland sé meðal þeirra landa þar sem minnst er reykt og drukkið.
Árangur forvarnarstarfsins felst því einkum í því að tekist hefur að snúa ofan af óeðlilega mikilli vímuefnaneyslu íslenskra unglinga, segir Þóroddur. Svo virðist sem hækkun sjálfræðisaldurs árið 1998 og stóraukið foreldraeftirlit hafi átt stóran hlut í þeim árangri.
Þóroddur segir að þótt lítil og minnkandi vímuefnaneysla íslenskra unglinga séu góðar fréttir fyrir þá sem láta sig velferð þeirra varða sé rétt að hafa í huga að þeir íslensku unglingar sem á annað borð neyta áfengis virðist lenda í fleiri og fjölbreyttari vandamálum en jafnaldrar þeirra annars staðar í Evrópu. Mikilvægt sé að hugað verði nánar að vandamálum þessa hóps íslenskra unglinga í framtíðinni.
Sem dæmi úr könnuninni má nefna eftirfarandi:
56% íslenskra þátttakenda sögðust hafa neytt áfengis síðustu 12 mánuði en 82% að meðaltali í Evrópulöndunum öllum.
Reykingar síðustu 30 daga: 16% á Íslandi en 29% að meðaltali í Evrópu. Hlutfallið í Noregi var 19%, í Svíþjóð 21% og 32% í Danmörku. Hæst var hlutfallið í Austurríki, 45%.
Einhvern tíma á ævinni prófað kannabisefni: 9% á Íslandi en 19% að meðaltali í Evrópu.
Sniffefni um ævina: 4% á Íslandi en 9% að meðaltali í Evrópu.
Álíka margir íslenskra unglinga sögðust hafa notað róandi lyf án lyfseðils á ævinni, 7% á Íslandi en meðaltalið í Evrópu var 6%.
31% íslenskra unglinga sögðust aldrei hafa prófað sígarettur, áfengi eða ólögleg vímuefni árið 2007 og sker Ísland sig algjörlega úr hvað þetta varðar. Næstbest kemur Noregur út, þar sem 19% sögðust aldrei prófað þessi efni, 16% í Svíþjóð og 12% í Finnlandi. Verst koma út Lettland og Tékkland en í báðum löndum sögðust aðeins 2% aldrei hafa prófað efnin, þ.e.a.s. 98% höfðu einhvern tíma gert það.