Skilorð fyrir skilasvik

Hæstiréttur
Hæstiréttur Sverrir Vilhelmsson

Hæstiréttur hefur dæmt karlmann á sextugsaldri, eiganda, framkvæmdastjóra og stjórnarformanns einkahlutafélags, í átta mánaða fangelsi, skilorðsbundið. Maðurinn var ákærður fyrir að taka undir sig eða ráðstafað á annan hátt nær öllum vörulager félagsins, sem veðsettur var með tryggingarbréfi útgefnu af Kaupþingi, að fjárhæð 19,5 milljónum króna, án þess að andvirði lagersins skilaði sér aftur til félagsins. Með því skerti maðurinn tryggingu bankans að miklum mun sem og rétt hans og annarra lánardrottna til að öðlast fullnægju af eignum félagsins. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í nóvember 2004.

Um var að ræða flísalager félagsins sem var settur að veði við útgáfu tryggingabréfs í febrúar 2004. Nokkrum dögum eftir að félagið var úrskurðað gjaldþrota fóru skiptastjórinn og fulltrúar Kaupþings í vörugeymslu félagsins og var lagerinn þá nær allur á brott. Í málinu lágu ekki fyrir upplýsingar um hvað orðið hafi um lagerinn. Eigandi félagsins sagði skiptastjóra þrotabúsins að hann hefði selt hann en vildi ekki greina frá kaupendum. Hjá lögreglu sagði hann hins vegar að vörugeymslan hefði verið ólæst og því hefði hver sem er getað gengið í hana. Þennan framburð ítrekaði maðurinn fyrir héraðsdómi.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að sú skilyrðislausa skylda hafi hvílt á eiganda félagsins að gæta að hagsmunum þess, sem fyrst og fremst tengdust einu eign félgsins; flísalagernum. Dóminum þótti hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hefði ráðstafað öllum lagernum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert