Reglur forsætisnefndar Alþingis um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings fela í sér „sterk tilmæli“ forsætisnefndarinnar til allra þingmanna, að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis.
Í reglunum segir m.a.: „Með setningu reglnanna ætlast forsætisnefnd til þess að alþingismenn skrái fjárhagslega hagsmuni sína og birti þá opinberlega.“ Skrifstofa þingsins mun halda hagsmunaskrána, og birta opinberlega. Helgi sagði að ekki væri lagagrundvöllur fyrir þessum tilmælum og því refsilaust að neita að verða við þeim. Reglurnar voru settar 16. mars. sl. og taka gildi 1. maí næstkomandi. Gert er ráð fyrir að þær verði endurskoðaðar fyrir 1. desember næstkomandi með það í huga að þá verði sett lög um þessa skráningu.
Fjárhagsleg tengsl og tekjur alþingismanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs eru birt á heimasíðu flokksins. Drífa Snædal, framkvæmdastýra VG, sagði að flokkurinn hefði ákveðið að hafa þessar upplýsingar uppi á borðinu. Þar má sjá upplýsingar um tekjur allra í þingflokknum, fasteignir þeirra, hlutabréfaeign, félagaaðild og nöfn og störf maka. Drífa sagði aðspurð að ekki hefði komið til tals innan VG að birta slíkar upplýsingar um þá sem skipa efstu sæti framboðslista flokksins í vor.
Framsóknarflokkurinn mun fara að reglum forsætisnefndar Alþingis varðandi þingmenn flokksins, að sögn Sigfúsar Inga Sigfússonar, framkvæmdastjóra flokksins. Hann sagði að upplýsingar um fjárhagsleg tengsl þingmanna Framsóknarflokks hefðu verið aðgengilegar í nokkuð mörg ár á heimasíðu flokksins. Sigfús benti á að að reglur forsætisnefndarinnar ættu einungis við um þá sem ættu sæti á Alþingi. Spurður hvort til greina kæmi að þeir sem skipa efstu sæti á framboðslistum Framsóknarflokksins birtu einnig upplýsingar um fjárhagsleg tengsl sín sagði Sigfús svo vera. Það hefur þó ekki verið rætt formlega innan flokksins á landsvísu.
Ekki náðist í framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins, Samfylkingarinnar né Sjálfstæðisflokksins í gær.