Þarf að greiða kennara bætur

Mýrarhúsaskóli.
Mýrarhúsaskóli. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur dæmdi í dag um að móðir ungr­ar stúlku, sem var nem­andi í Mýr­ar­húsa­skóla á Seltjarn­ar­nesi, greiða kenn­ara stúlk­unn­ar rúm­ar 9,7 millj­ón­ir króna í skaðabæt­ur auk 1,5 millj­óna króna í máls­kostnað. Stúlk­an renndi hurð á höfuð kenn­ar­ans og slasaði hann.

Stúlk­an hef­ur verið greind með  Asp­er­ger­heil­kenni. Henni hafði í nóv­em­ber 2005 sinn­ast við bekkj­ar­fé­laga sína og farið inn í geymslu, sem var lokað með renni­h­urð. Kenn­ar­inn, sem er kona, ætlaði að sækja stúlk­una og stakk höfðinu inn í geymsl­una en þá skall renni­h­urðin á and­liti henn­ar og hent­ist hún þá með höfuðið á vegg. Síðan hef­ur hún þjáðst af höfuðverk, öðrum eymsl­um og þrek­leysi.

Kenn­ar­inn stefndi bæði stúk­unni og Seltjarn­ar­nes­bæ fyr­ir hönd skól­ans vegna slyss­ins. Héraðsdóm­ur taldi að stúlk­an, sem var nýorðin 11 ára þegar þetta gerðist, hafi þekkt mun­inn á réttu og röngu og ekk­ert í mál­inu bendi til þess að fötl­un henn­ar hafi skert dómgreind henn­ar eða að vits­munaþroski henn­ar hafi verið minni en al­mennt hjá börn­um á sama aldri.  

Þá seg­ir í dómn­um, að ekk­ert liggi fyr­ir um það í mál­inu að stúlk­an hafi ætlað sér að skella hurðinni á kenn­ar­ann held­ur sé lík­legra að hvat­vísi henn­ar hafi þar ráðið för eða reiði vegna þess að henni hafði sinn­ast við skóla­bræður sína.  Á hinn bóg­inn hafi henni mátt vera ljóst, að sú hátt­semi henn­ar að loka hurðinni með afli  væri hættu­leg og hún hlyti að hafa gert sér grein fyr­ir því hversu al­var­leg­ar af­leiðing­ar sú hátt­semi gat haft í för með sér.  Því beri stúlk­an skaðabóta­ábyrgð á tjóni kenn­ar­ans.

Skól­inn var sýknaður af kröfu um skaðabæt­ur þó að matsmaður hafi talið að klemmi­vörn á hurðinni hafi ekki komið í veg fyr­ir að  hún skall á höfði kenn­ar­ans.

Fyr­ir Hæsta­rétti taldi móðir stúlk­unn­ar, að héraðsdómi hefði borið að kalla til sér­fróðan meðdóms­mann með þekk­ingu á heilsu­fars­leg­um vanda­mál­um stúlk­unn­ar vegna Asp­er­ger-heil­kenn­is­ins. Einnig krafðist hún sýknu þar sem sýnt væri fram á með nýj­um gögn­um um heilsu­far stúlk­unn­ar að ekki væru skil­yrði til að fella á hana skaðabóta­ábyrgð. Hæstirétt­ur hafnaði þess­um rök­um og staðfesti héraðsdóm­inn.

Fram kom eft­ir að dóm­ur­inn var kveðinn upp í héraði, að fjöl­skyldu­trygg­ing kon­unn­ar hjá Trygg­inga­miðstöðinni myndi greiða bæt­urn­ar ef dóm­ur­inn yrði staðfest­ur í Hæsta­rétti. Skaðabóta­skylt tjón af völd­um barns er jafn­an bætt af slíkri trygg­ingu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert