„Rétt er að benda framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins á það að hlutverk verkalýðshreyfingarinnar er að bæta kjör sinna félagsmanna og það er Verkalýðsfélag Akraness að gera með því að skora á fyrirtæki sem hafa fjárhagslega burði til að koma með áður umsamdar launahækkanir strax,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA. Hann segir að um 1.000 verkamönnum og konum hafi verið tilkynnt að staðið verði við hækkun launa þeirra.
Vilhjálmur Birgisson sendir framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins tóninn í pistli á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness. Tilefnið er gagnrýni SA á þann þrýsting sem myndaðist í kjölfar ákvörðunar um arðgreiðslur HB Granda. Fjölmörg fyrirtæki hafa ákveðið að greiða áður umsamdar launahækkanir, þrátt fyrir samkomulag SA og ASÍ um frestun kjarasamninga til loka júní.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA sagði á mbl.is að verið væri að hrekja SA út í það að segja samningum upp með þessu framferði.
„Ugglaust hefðu Samtök atvinnulífsins viljað að Verkalýðsfélag Akraness hefði ekki greint frá því að fyrirtæki eins og HB Grandi væri að skila góðri afkomu og ætlaði að greiða sér út arð á sama tíma og verkafólk varð af þeirri hækkun sem átti að koma til framkvæmda 1. mars sl. Slíkt kom alls ekki til greina af hálfu formanns félagsins vegna þess að félagið á að gæta að hagsmunum sinna félagsmanna og ef fyrirtæki geta greitt út arð þá er þeim engin vorkunn að greiða sínu starfsfólki áður umsamdar launahækkanir. Það er morgunljóst að sú umfjöllun sem Verkalýðsfélag Akraness fór af stað með þann 12. mars sl. vegna arðgreiðslna HB Granda hefur nú skilað umtalsverðum árangri fyrir verkafólk víða um landið,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.
HB Grandi, Brim, hrognavinnsla Vignis G. Jónssonar, Norðurströnd á Dalvík, Sjávariðjan á Snæfellsnesi, Godthaab í Vestmannaeyjum og Sæmá á Blönduósi hafa öll tilkynnt að þau ætli að greiða umsamdar launahækkanir. Þá ætla fleiri fyrirtæki að standa við umræddar launahækkanir án þess að gera það opinbert, að sögn Vilhjálms.
„Ef það er rétt mat hjá formanni félagsins að um 1.000 verkamenn hafi fengið þessa launahækkun nú þegar þá þýðir það 13,5 milljónir í heildina til handa þessu verkafólki á mánuði fyrir utan áhrif á hækkun á yfirvinnu samhliða hækkun á grunnlaunum. Nú er búið að fresta launahækkunum alla vega til 1. júlí sem þýðir að heildarlaunahækkunin er um 40,5 milljónir handa öllum þessum starfsmönnum. Hver starfsmaður fær rúmar 40.000 kr. hækkun þessa 3 mánuði,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.
Hann spyr nafna sinn Egilsson hjá SA af hverju eru Samtök atvinnulífsins hvetji fyrirtæki til að standa ekki við áður umsamdar launahækkanir og hvers vegna fyrirtæki sem hafi til þess fjárhagslega burði, megi ekki standa við þann samning sem undirritaður var 17. febrúar 2008.
„Það er verið að tala um verkafólk sem er með 140 til 160 þúsund í grunnlaun á mánuði. Þessi afstaða SA er mér óskiljanleg,“ segir Vilhjálmur Birgisson.