Kostnaður við skilanefndir og mat á stöðu og eignum bankanna frá því í október verður nálægt einum milljarði króna þann 1. apríl að sögn Álfheiðar Ingadóttur, formanns viðskiptanefndar Alþingis. „Það má segja að þetta sé heildarkostnaður við úrvinnslu á hruni bankanna á þessu tímabili,“ segir Álfheiður.
Á fundi nefndarinnar í morgun var farið yfir þennan kostnað og kom þar m.a. fram að kostnaður vegna skilanefnda til janúarloka var 240 milljónir. Samkvæmt neyðarlögunum fellur sá kostnaður beint á ríkissjóð. Annar kostnaður fellur hins vegar á Fjármálaeftirlitið, sem skipar skilanefndirnar, en það er til dæmis vegna aðkeyptrar vinnu endurskoðunarfyrirtækja og sérfræðinga.
Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga þar sem lögð er til breyting á því hvernig kostnaðurinn við skilanefndirnar greiðist. Þar er lagt til að hann hætti að falla á ríkissjóð heldur fari um hann eins og venjulega fer um skiptakostnað í þrotabúum, þ.e. hann greiðist úr búinu sjálfu. Eftir gildistökuna, verði frumvarpið að lögum, mun kostnaðurinn því hætta að falla á ríkissjóð og fara að greiðast úr þrotabúum gömlu bankanna.