Yfirtaka ekki hugsuð til enda

Þrjátíu og fimm erlendir kröfuhafar SPRON segja að sameinaðar aðgerðir Fjármálaeftirlitsins (FME), Seðlabanka Íslands og Fjármálaráðuneytisins vegna yfirtökunnar á SPRON í síðustu viku hafi valdið tjóni og kunni að hafa afleiðingar í för með sér sem íslensk stjórnvöld hafi hugsanlega ekki hugleitt til fulls, áður en þau tóku sparisjóðinn yfir.

Í bréfi frá kröfuhöfunum, sem eru frá fjórtán löndum í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Asíu, segir að íslensk stjórnvöld hafi hafnað áætlunum um endurskipulagningu SPRON án skýringa og jafnframt hafnað beiðni um að hitta kröfuhafana.

Kröfuhafarnir segja að íslensk stjórnvöld hafi ekki á nokkrum tímapunkti gefið gagntilboð, eða tillögu að lausn, þrátt fyrir að þeim væri fullljóst að það væri vilji kröfuhafanna að vinna með SPRON og íslenskum stjórnvöldum að lausn á málefnum sparisjóðsins innan hæfilegra tímamarka, en kröfuhafarnir hafa unnið hörðum höndum með SPRON að endurskipulagningu undanfarna mánuði.

Í ákvörðun FME um að taka yfir vald hluthafafundar SPRON og víkja stjórn frá áskilur FME sér rétt til endurskoðunar. Allar innstæður hafa hins vegar verið færðar til Nýja Kaupþings og útgefið hefur verið skuldabréf vegna yfirfærslunnar sem er tryggt með veði í öllum eignum SPRON. Staða kröfuhafanna er því í lausu lofti því enginn markaður er fyrir eignir í augnablikinu sem þýðir að verðmat á undirliggjandi eignum SPRON, sem hafa verið veðsettar Nýja Kaupþingi, er afar lágt. Því er ekki vitað hvað fæst upp í kröfur þeirra þegar búið er að mæta skuldbindingum vegna yfirfærðra innlána. Íslenskir lögmenn kröfuhafanna munu funda með þeim á næstu dögum til þess að ræða næstu skref.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert