Stjórn Framsýnar stéttarfélags í Norðurþingi lýsir áhyggjum af fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum til leikskóla og daggæslu barna. Félagið óttast að ungt fólk leiti annað ef grunnþjónustan verður skert í Norðurþingi.
Á stjórnarfundi Framsýnar í gær urðu nokkrar umræður um stöðu barnagæslu á Húsavík. Á vefsíðu félagsins segir að fyrirhugaður sé niðurskurður á þjónustu leikskólans Grænuvalla á Húsavík, auk þess sem blikur séu á lofti með áframhaldandi starfsemi dagmæðra í bænum.
Foreldrar, sem jafnframt eru félagsmenn í Framsýn, hafa að sögn formanns Framsýnar, leitað til félagsins vegna þessa og finnst mörgum þeirra að verið sé að skerða möguleika barnafólks til að búa á Húsavík með niðurskurði í málaflokknum. Sveitarfélagið sé í raun að gera þessum hópi erfiðara um vik að búa á svæðinu.
„Í ljósi þess að fólki á barneignaraldri í Norðurþingi hefur fækkað verulega á undanförnum árum lýstu fundarmenn áhyggjum sínum af því að niðurskurður til leikskóla og daggæslu barna myndi höggva enn stærri skörð í þennan aldurshóp. Mikilvægt sé að ungu fólki sé gert kleift að setjast að í sveitarfélaginu. Liður í því sé að halda úti nauðsynlegri grunnþjónustu eins og dagforeldrum og leikskólum, að öðrum kosti gæti ungt fólk neyðst til að leita sér að búsetu annars staðar,“ segir á vef Framsýnar.