Bjarni Ben: Við viljum vera fyrir utan ESB

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson mbl.is / Ómar

Bjarni Benediktsson alþingismaður sem hefur lýst yfir framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins sagði í umræðum um ályktun um Evrópumál á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að Samfylkingin hefði einangrað sig í Evrópumálum.  

Bjarni sagði að aðeins einn flokkur á Ísland hefði aðild á dagskrá, það væri Samfylkingin og hún hefði einangrað sig í Evrópumálum.

„Fyrr eða síðar er það lýðræðislegt að þjóðin fái að segja sína skoðun í málinu,“ sagði Bjarni. Þá kæmi til skoðunar hvort að Sjálfstæðisflokkurinn hefði frumkvæði að því að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um þetta málefni eða ekki.

Hann sagðist í meginatriðum hlynntur þeirri ályktun um Evrópumál sem lögð hefði verið fyrir landsfundinn. „Við viljum vera fyrir utan (Evrópusambandsins), okkar hagsmunamat leiðir til þeirrar niðurstöðu,“ sagði Bjarni.

Mikilvægt að hugleiða stöðu fyrirtækjanna
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, lagði áherslu á að landsfundargestir hugleiddu þá stöðu sem væri komin upp og vísaði til átaka um tvö verðmætustu fyrirtækin sem skráð eru í Kauphöll Íslands, Össur og Marel. Þau væru sennilega á leið úr landi. Hann var þar að vísa til þeirra starfsskilyrða sem slík fyrirtæki hefðu við núverandi aðstæður.

Flestir þeirra sem tekið hafa til máls til þessa segjast andvígir aðild. Nokkrir fundarmanna hafa sagt að ályktunin sé óskýr og þörf sé á skýrri afstöðu. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagðist vona að Sjálfstæðisflokkurinn sýndi umburðarlyndi gagnvart ólíkum skoðunum með því að samþykkja þá ályktun sem lægi fyrir.

Ályktunin felur í sér að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort hefja beri viðræður við Evrópusambandið. Er lagt til að forystu flokksins verði falið að leita samkomulags á Alþingi um að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram á næsta kjörtímabili.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert