Ragna Árnadóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, óskaði í gærkvöld eftir því að frestað yrði framkvæmd brottvísunar fimm hælisleitenda, sem flytja átti úr landi í morgun til Grikklands. Ástæða þess er sú að í ráðuneytinu er nú þegar til meðferðar kæra vegna ákvörðunar um brottvísun til Grikklands.
Dómsmálaráðuneytið hefur af því tilefni leitað eftir upplýsingum um aðstæður hælisleitenda í Grikklandi. Þær upplýsingar hafa enn ekki borist og því hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hvort hefja eigi brottvísanir hælisleitenda til Grikklands á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar.